Þrír lög­reglu­menn í í Col­or­ado í Banda­ríkjunum voru reknir nánast fyrir­vara­laust í lok vikunnar eftir að þeir birtu myndir af sér á sam­fé­lags­miðlum, þar sem þeir skop­stæla hand­töku sem varð Eli­jah McClain að bana fyrir um ári síðan. Annar lög­reglu­maður sagði af sér vegna málsins.

Lög­reglu­mennirnir sem um ræðir tóku myndirnar við minnis­varða sem var reistur til heiðurs McClain í heima­borg hans Aur­ora í Den­ver. Þar sjást lög­reglu­mennirnir taka hvorn annan háls­taki með bros á vör.

Að mynda­tökunni lokinni sendu lög­reglu­þjónarnir myndirnar til sam­starfs­fólks síns og brást meðal annars einn við með því að svara „ha ha.“ Hann er meðal þeirra sem var rekinn vegna málsins.

Ó­út­skýran­legt og við­bjóðs­legt at­hæfi

Lög­reglu­stjóri lög­reglunnar í Aur­ora, Vanessa Wil­son, deilir ekki húmor fé­laganna sem málið snýst að og segir sér hafa verið gróf­lega mis­boðið þegar hún sá myndirnar. „Við skömmumst okkar, okkur býður við þessu og við erum reið yfir því sem ég þarf að deila í dag,“ sagði Wil­son á blaða­manna­fundi um málið.

„Þrátt fyrir að á­sakanir í þessu máli séu ekki glæp­sam­legar eru þær glæpur gegn mann­kyni og vel­sæmd. Að detta þetta yfir­höfuð í hug er með öllu ó­skiljan­legt og það er víta­vert.“

Vildu hressa fé­laga við

Einn lög­reglu­mannanna á myndinni sagði í sam­tali við rann­sóknar­nefnd að myndin hafi verið tekin til að upp­örva einn af lög­reglu­mönnunum sem tók þátt í hand­töku McClain á sínum tíma.

„Ég og tveir aðrir lög­reglu­menn vorum á svæðinu vegna út­kalls, sáum minnis­varðann og tókum mynd fyrir framan hann í þeim eina til­gangi að hressa einn lög­reglu­mann við sem var við­riðin máli Eli­jah McClain.“

Elijah McClain var 23 ára nuddari sem spilaði á fiðlu fyrir ketti í kattarathvörfum í frítíma sínum.

Þótti grun­sam­legur vegna skíða­grímu

Mál McClain var rifjað upp að nýju eftir dauða Geor­ge Floyd sem lést einnig vegna hand­töku í Banda­ríkjunum. McClain var að­eins 23 ára að aldri þegar hann lést. Fyrir um ári síðan var hann á leið heim til sín á laugar­dags­kvöldi með íste þegar þrír lög­reglu­menn stöðvuðu hann. Neyðar­lín­unni hafði borist á­bend­ing um grun­­sam­­leg­ar ferðir manns sem bar skíða­grímu og sveiflaði hönd­unum. Maðurinn reyndist vera Mc­Cain og telur fjöl­skylda hans hann hafa verið að dansa en grímuna notaði hann vegna þess að hann þjáðist af astma.

Fimm­tán mínútum eftir að lög­reglu­mennirnir stoppuðu Mc­Cain var hann þvingaður niður í jörðina og tekinn háls­taki þar til hann varð með­vitundar­laus.

Búk­mynda­vélar færðar við hand­töku

Búk­mynda­vélar lög­reglu féllu allar af þeim á ó­út­skýran­legan hátt. Í hljóð­upp­töku frá hand­tökunni má heyra lög­reglu­mann biðja sam­starfs­fé­laga sinn að færa búk­mynda­vél sína á­samt því sem McClain heyrist segja „Ég er inn­hverfur, vin­sam­legast virðið mörk mín.“

Þegar McClain komst aftur til var hann sprautaður með keta­míni. Á leiðinni á spítala fékk hann hjarta­á­fall og var hann með­vitundar­laus þar til hann lést þremur dögum síðar.

Lög­reglan í Aur­ora bannaði notkun háls­taksins sem notað var í hand­töku McClain fyrr í þessum mánuði. Sam­kvæmt nýjum reglum er lög­reglu­mönnum gert að skerast í leikinn sjái þeir fé­laga sína beita ó­hóf­legu afli við hand­töku.