Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hvorki rannsakaði né kærði bréf Harðar Jóhannessonar, fyrrverandi aðstoðarlögregluþjóns, til ríkissaksóknara árið 2012 og var ekkert bókað um málið.

Ríkissaksóknari staðfestir þetta í svari við fyrirspurn frá Fréttablaðinu. „Hjá ríkissaksóknara hefur ekki verið mál til meðferðar vegna þessa,“ segir í svarinu. Embætti hérðssaksóknara tók til starfa í janúar árið 2016 og hefði því málið komið á borð ríkissaksóknara hefði lögregla farið eftir eðlilegum verkferlum og lögum.

Brot á persónuverndarlögum

Persónuvernd úrskurðaði í ágúst að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi brotið persónuverndarlög við vinnslu persónuupplýsinga um Aldísi Schram þegar Hörður sendi bréfið á Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra.

Í úrskurði Persónuverndar kemur fram að engin skjöl má finna í skjalasafni lögreglunnar um bréfið sem þáverandi aðstoðarlögreglustjóri skrifaði og sendi á Jón Baldvin um afskipti lögreglu af Aldísi Schram, dóttur hans.

Samkvæmt lögum og ferlum embættisins hefði átt að vista umrædd bréfaskipti í málaskrá embættisins. Stefán Eiríksson, núverandi útvarpsstjóri RÚV, var lögreglustjóri árið 2012 þegar Hörður var aðstoðarlögreglustjóri.

Jón Baldvin sýndi sjálfur bréfið í Silfrinu og birti afrit af því í grein í Morgunblaðinu í fyrra.
Mynd: Skjáskot

Lögreglan braut lög

Héraðssaksóknari taldi ekki tilefni til að hefja rannsókn vegna áætlaðra brota Harðar Jóhannessonar, fyrrverandi aðstoðarlögregluþjóns, í tengslum við bréfið.

Aldís Schram kærði Hörð til héraðssaksóknara þann 12. febrúar 2019 eftir að Jón Baldvin birti bréfið í Morgunblaðinu og sýndi það í Silfrinu á RÚV.

Ástæðan fyrir því að héraðssaksóknari vísaði kærunni frá var að bréfið var dagsett 5. janúar 2012 og samkvæmt almennum hegningarlögum fyrnist sök á fimm árum. Miðað var við dagsetninguna þegar brotið var framið, þ.e. árið 2012 þegar Hörður skrifaði bréfið, en ekki við 7. febrúar 2019, þegar Jón Baldvin birti fyrsti bréfið í Morgunblaðinu og Aldís frétti fyrst um tilvist bréfsins og taldi tilefni til að kæra.

Bréfið umrædda.