Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu telur ekki tilefni til að bregðast frekar við broti Harðar Jóhannessonar vegna þess að umrætt atvik gerðist fyrir átta árum. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans sem birtist í dag.

Persónuvernd úrskurðaði að lögreglan hafi brotið lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga þegar Harðar veitti Jóni Baldvini Hannibalssyni bréf um afskipti lögreglu af Aldísi Schram, dóttur Jóns Baldvins.

Segja margt hafa breyst á 8 árum

Embætti lögreglustjóra segir margt hafa breyst á þeim átta árum síðan Hörður sendi bréfið til Jóns Baldvins og þess vegna sé ekki tilefni til að bregðast frekar við.

„Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hefur farið yfir umræddan úrskurð Persónuverndar og niðurstöðu. Rétt er að taka fram að á þeim 8 árum síðan atvik máls áttu sér stað, hefur átt sér stað mikil vinna við breytingar er varðar afgreiðslu á málum af þessu tagi. Er það markmið embættisins að iðka vandaða stjórnsýslu sem er lögum samkvæm,“ segir í svörum embættisins til Kjarnans.

Vísuðu kærunni frá viku eftir að hún barst

Embætti lögreglustjóra segist hafa farið yfir málið árið 2012 ásamt embætti Héraðssaksóknari sem hafði málið til meðferðar.

„Í því ljósi og þess að margt hefur breyst á þeim 8 árum síðan atvik áttu sér stað, m.a. í afgreiðslu mála af þessu tagi, telur embættið ekki tilefni til að bregðast frekar við, umfram það að hafa alla ferla embættisins í sífelldri endurskoðun.“

Aldís kærði brot Harðar Jóhannessonar til héraðssaksóknara þann 12. febrúar 2019, fimm dögum eftir að Jón Baldvin birti bréfið frá Herði, en kærunni var vísað frá þann 19. febrúar að þeirri yfirlýstu ástæðu að brot Harðar væru fyrnd.

Hringdi á lögreglu eftir að Aldís tilkynnti um kynferðisbrotin

Aldís segir bréfið ekki einungis brot á persónuverndarlögum heldur einnig ósatt. Í bréfinu, sem dagsett er 5. janúar 2012, segir Harðar að Jón Baldvin og Bryndís Schram hafi aldrei kallað á lögreglu eða beðið lögreglu um afstöð af neinu tagi hennar vegna.

Hægt er að sýna fram með gögnum frá lögreglunni frá árinu 2002 að það sé ekki rétt. Bryndís hafi til að mynda beðið um aðstoð lögreglu 10 mínútum eftir að Aldís tilkynnti kynferðisbrot Jóns Baldvins til lögreglunnar.

Hafði Jón Baldvin sagt dóttur sína vera með ranghugmyndir og látið nauðungarvista hana á geðdeild.