Héraðsdómur Suðurlands hefur úrskurðað embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi vanhæft til þess að fara með mál gegn Hreggviði Hermannssyni, bónda í Flóahreppi. Embættið gaf í mars á þessu ári út ákæru í fjórum liðum á hendur Hreggviði fyrir eignaspjöll og brot á vega- og umferðarlögum.

Hreggviður var sakaður um að hafa eyðilagt girðingarstaura og ídráttarrör fyrir raflagnir í eigu nágranna sinna. Þá á hann að hafa ítrekað hamlað för hjónanna um vegslóða með því að strengja vír yfir veginn auk þess að hunsa skipanir lögreglu um að stöðva akstur bíls.

Málið er angi af svæsnum nágrannaerjum Hreggviðs annars vegar og Ragnars Vals Björgvinssonar og Fríðar Sólveigar Hannesdóttur hins vegar. Þær hafa staðið í tæp fimmtán ár. Taldi héraðsdómur tengsl starfsmanna embættisins við Ragnar Val og Fríði þess valdandi að draga mætti óhlutdrægni í efa.

Tveir af þremur starfsmönnum á ákærusviði embættisins tengjast hjónunum. Dóttir Fríðar er löglærður fulltrúi á sviðinu og kollegi hennar tók að sér verkefni sem tengdust erjunum fyrir Ragnar Val er hann starfaði sjálfstætt.

Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi og ákvað embættið að áfrýja þeim úrskurði til Landsréttar.

Í harðorðri greinargerð verjanda Hreggviðs, Einar Gauts Steingrímssonar, til Landsréttar ber hann embætti Lögreglustjórans á Suðurlandi þungum sökum. Segir hann Hreggvið hafa verið lagðan í einelti af lögreglunni vegna þessara tengsla svo árum skipti og að áhugi embættisins á honum jaðri við þráhyggju.

Til að styðja þá fullyrðingu hafi Einar Gautur óskað eftir yfirliti um öll atvik sem tengjast Hreggviði hjá lögreglustjóraembættinu en gripið í tómt. Við munnlegan málflutning í héraði hafi skýringin verið sú að skráningin væri þúsundir síðna.

Þá segir Einar Gautur lögregluna hafa beitt Hreggvið ónauðsynlegu valdi. Hann hafi meðal annars verið handjárnaður á heimili sínu eftir kvörtun nágrannanna. Hreggviður sé að bugast vegna eineltis lögreglu og nágranna sinna.

„Meðvirkni með lögreglu í samskiptum hennar við borgarana má aldrei vera,“ segir Einar Gautur.

Erjur Hreggviðs og Ragnars Vals og Fríðar hafa oft ratað í fjölmiðla. Hreggviður er fæddur að Langholti 1 í Flóahreppi en Ragnar og Fríður fluttu þangað 1990. Fyrstu fimmtán árin voru ekki árekstrar milli nágrannanna en þá fóru hjónin í mál við Hreggvið út af veiðiréttindum í Hvítá. Hafði Hreggviður betur. Í kjölfarið hefur stríðsástand ríkt og kærur gengið á víxl.

Segja má að hápunktur deilnanna hafi verið er Ragnar Valur var fundinn sekur um að hafa keyrt á Hreggvið 2017. Hlaut hann sex mánaða skilorðsbundinn fangelsisdóm og þurfti að greiða Hreggviði 700 þúsund krónur í bætur. Ragnar Valur áfrýjaði til Landsréttar sem tekur málið fyrir á næsta ári.