„Ég vil ekki tjá mig um kæruna. Þetta mál er bara í ákveðnu ferli,“ segir Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi.

Fréttablaðið bar undir lögreglustjórann kæru Karls Gauta Hjaltasonar til ríkissaksóknara, eftir þá ákvörðun lögreglunnar á Vesturlandi að hætta rannsókn á hendur yfirkjörstjórn á Vesturlandi vegna talningar atkvæða í Borgarnesi að loknum alþingiskosningum í haust.

Karl Gauti var einn þeirra frambjóðenda sem virtust hafa náð þingsæti á kosninganótt en misstu það svo eftir endurtalningu yfirkjörstjórnar á Vesturlandi.

Karl Gauti sagði í Fréttablaðinu í gær að ekki hefði verið ætlun löggjafans að slaka á kröfum heldur þvert á móti að auka þær. Embætti lögreglustjóra á Vesturlandi vísar í breytingar sem Alþingi gerði á kosningalögum meðan á rannsókninni stóð.

Vakið hefur athygli að ef meðlimir yfirkjörstjórnarinnar hefðu greitt sektarboð sem lögreglustjórinn hafði gert þeim að greiða áður en hann felldi niður málið hefði staða þeirra verið verri. Með því að greiða ekki sektina hafði yfirkjörstjórnin að minnsta kosti tímabundinn sigur í málinu.