Helena Dögg Hilmars­dóttir, móðir á Akur­eyri, hefur lagt fram í­trekaðar kærur til lög­reglu vegna heimilis­of­beldis og eigna­spjalla af hálfu of­beldis­manns hennar. Maðurinn hefur í­trekað beitt hana of­beldi og meðal annars sett etanól og rúðu­vökva í bensín­tankinn á bíl hennar. Páley Borg­þórs­dóttir, lög­reglu­stjóri á Norður­landi eystra, segir að þrátt fyrir það meti lög­regla svo að hvorki kærandi né barn séu í bráðri hættu.

Fréttablaðið greindi frá máli Helenu fyrr í mánuðinum.

Helena er afar ó­sátt við gang mála hjá lög­reglu­em­bættinu á Norður­landi eystra. Hún hefur lagt fram fjölda kæra á hendur of­beldis­manninum, sýnt fram á sönnunar­gögn og haft vitni en þrátt fyrir það þokar málunum lítið sem ekkert á­fram hjá lög­reglunni.

Helena var gestur Eddu Falak í hlað­varps­þættinum Eigin konur í vikunni þar sem hún greindi nánar frá of­beldi og of­sóknum af hendi of­beldis­mannsins og bar­áttu sinni við kerfið.

Helena greinir frá því að hún hafi kært of­beldis­manninn fyrir heimilis­of­beldi í fyrra. Lög­reglan kom á staðinn, Helena fór upp á bráða­mót­töku og fékk á­verka­vott­orð en fljót­lega fór að bera á seina­gangi málsins. Því varð lítið á­gengt en of­beldis­maðurinn hélt á­fram að á­reita hana og Helena lifði í stöðugum ótta.

Mar á handlegg Helenu eftir eina af árásum ofbeldismannsins.
Mynd\Aðsend

Helena segir í við­talinu að lög­reglan hafi sí­fellt lofað öllu fögru, ætlað að gera eitt­hvað í málunum og nú færi vinna við það á fullt. Síðan fær hún sím­tal ein­hverju seinna frá lög­reglunni þar sem hún fær þær fréttir að ekkert hafi gerst í hennar málum, en nú fari eitt­hvað að gerast. Sú varð hins vegar ekki raunin og áttu í­trekuð sam­bæri­leg sím­töl átt eftir að eiga sér stað.

Að auki hafi lög­fræðingar hennar ýtt á eftir málinu, en þrátt fyrir það hafi ekkert gerst.

Á meðan rann­sókninni stóð hafi í­trekuð brot átt sér stað, meðal annars al­var­leg eigna­spjöll og um­sátur. Lög­reglan hafi á­vallt mætt á staðinn og sagst ætla að taka á málinu, en eftir stóð alltaf sú spurning í huga Helenu hvers vegna ekkert væri búið að gerast í hinu upp­haf­lega máli. Heimilis­of­beldis­málinu.

Bíllinn hennar Helenu hefur orðið fyrir ítrekuðum skemmdum síðustu ár.

Páley segir mæðgurnar ekki í bráðri hættu

Frétta­blaðið bað um viðbrögð lögreglu við málinu og svaraði Páley Borg­þórs­dóttur, lög­reglu­stjóri á Norður­landi eystra, erindinu. Hún segir heimilis­of­beldis­mál vera í for­gangi hjá em­bættinu, „enda litið svo á að of­beldi í nánum sam­böndum sé ekki einka­mál­efni aðila heldur sam­fé­lags­mein sem verður ekki liðið,“ segir Páley.

Hins vegar segir Páley að „enn hefur ekkert komið fram í málinu sem bendir til þess að kærandi eða barnið sé í bráðri hættu. Það mat lögreglu getur hins vegar tekið breytingum.“

Í samtali við Fréttablaðið þann 2. nóvember síðastliðinn sagði Helena: „Þetta er ekki „bara“ um­sátur og eitt­hvað sem ég lenti í fyrir nokkrum árum. Þetta er stans­laust á­reiti, um­sátur, skemmdir á eignum, niðrandi skila­boð og sím­töl, brotist inn á sam­fé­lags­miðla og fylgst með öllu.“

Bíllinn hennar Helenu hefur orðið fyrir ítrekuðum skemmdum síðustu ár.

Helena fór í skýrslu­töku til lög­reglu fyrir um þremur vikum síðan og vildi sækja um nálgunar­bann á hendur geranda sínum. Gerandinn keyrir í­trekað í kringum í­búðina hennar og fylgist með ferðum hennar og gesta á heimilinu, líkt og fram kom í grein Frétta­blaðsins og í við­tali Helenu hjá Eddu Falak.

Líkt og áður segir er Helena með í fórum sínum myndir, mynd­bönd og vitni að ýmsum brotum en lög­reglan hefur ekki enn talað við vitnin, þrátt fyrir fögur fyrir­heit, og ekki enn kallað gerandann í skýrslu­töku.

Páley segir enn fremur í svari sínu til Fréttablaðsins að þau mál sem í rann­sókn eru hjá lög­reglunni á Norður­landi eystra varðandi þetta til­tekna mál eigi ekki í hættu á að fyrnast. Em­bættinu er hins vegar ekki unnt að veita frekari upp­lýsingar um málið sökum rann­sóknar­hags­muna og per­sónu­verndar­sjónar­miða.