Sex lög­reglu­mönnum al­ríkis­þing­hússins í Was­hington, D.C., hefur nú verið vikið tíma­bundið frá störfum fyrir þeirra hlut­verk í ó­eirðunum við þing­húsið þann 6. janúar. Þá er einnig verið að rann­saka 29 aðra lög­reglu­menn þing­hússins í tengslum við málið.

Einn af lög­reglu­mönnunum sem hefur nú verið vikið úr starfi tók mynd af sjálfum sér með einum úr lýðnum sem ruddist inn í þing­húsið. Annar gekk um með rauða „Make America Great Again“ húfu, sem stuðnings­menn Trumps nota oft, og leið­beindi múginum fyrir utan þing­húsið.

John Stolnis, tals­maður lög­reglu­deildar þing­hússins, greindi frá málinu í sam­tali við CNN í gær en Yogananda Pitt­man, starfandi lög­reglu­stjóri þing­hússins, hefur síðast­liðnar vikur lagt mikla á­herslu á það að lög­reglu­mönnum sem tóku á ein­hvern hátt þátt í ó­eirðunum axli á­byrgð.

Fjölmargir til rannsóknar

Verið er að rann­saka mynd­efni frá ó­eirðunum og er ekki ó­lík­legt að fleiri verði rann­sakaðir á næstunni en hundruð ein­stak­linga, þar á meðal að minnsta kosti sjö lög­reglu­menn frá fimm öðrum lög­reglu­deildum, eiga yfir höfði sér á­kærur fyrir þátt­tökuna í ó­eirðunum.

Alls létust fimm ein­staklingar í ó­eirðunum en meðal þeirra var einn lög­reglu­maður, Brian Sicknick, auk þess sem tveir lög­reglu­menn frömdu sjálfs­víg nokkrum dögum eftir ó­eirðirnar. Í kjöl­farið á­kvað Al­ríkis­lög­reglan í Banda­ríkjunum að lýsa eftir ein­stak­lingum sem voru á staðnum og hafa margir verið rann­sakaðir.

Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, var um helgina sýknaður af öldunga­deild þingsins af á­kæru til em­bættis­missis fyrir að hvetja til upp­reisnar í tengslum við ó­eirðirnar. Lík­legt er þó að hann þurfi að sæta saka­mála­rann­sókn vegna málsins en hann var að­eins sýknaður af á­kæru fyrir em­bættis­brot.