„Þetta hefur greinilega farið algerlega úr böndunum miðað við þær myndir sem við höfum fengið sendar í morgun, og þarna komin merki sem eru allt frá því að vera mjög umdeild og út í að vera hreinlega ósmekkleg,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um myndir af lögreglumönnum með merki sem nýnasistar hafa tekið upp auk merkinga sem tengdar hafa verið kynþáttahatri.

„Ég gaf fyrirmæli til allra lögreglumanna við það embætti sem ég starfa hjá, að allar þessar merkingar skuli fara af vestunum. Svona merkingar eru algerlega ótækar og gefa skilaboð í þveröfuga átt og inn í hópa sem sem lögreglan er að hamast við að reyna að nálgast og ná betra sambandi við alla daga. Þannig að við kunnum þessu engar þakkir,“ segir Ásgeir Þór.

Þarna komin merki sem eru allt frá því að vera mjög umdeild og út í að vera hreinlega ósmekkleg.

Hann bætir því við að hann stórefist um að allir átti sig í raun á hvað þessi merki standi fyrir eða hvernig þau geti verið túlkuð. Hins vegar hafi verið löng hefð fyrir því að lögreglumenn hafi merki lögreglumanna, ‚Thin blue line‘ innanklæða, en merkið hafi upphaflega og í grunninn verið mjög saklaust merki lögreglumanna.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu staðfestir einnig í samtali við Fréttablaðið að umræddar merkingar séu ekki í samræmi við reglugerðir um merkingar á lögreglufatnaði. 

Sjálf hefur lögreglan þegar brugðist við á Twitter og svarar netverjum: „Lögreglan styður ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt. Lögreglumenn eiga ekki að bera nein merki sem ekki eru viðurkennd á lögreglubúningi og hefur það þegar verið ítrekað við allt okkar starfsfólk og verður því fylgt eftir.“