Átta af níu lögreglustjórum landsins og formenn Landssambands lögreglumanna lýsa yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra, HaraldJohannessen, í dag.

Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Vesturlandi og jafnframt formaður Lögreglustjórafélags Íslands, segir málið hafa átt sér þónokkurn aðdraganda. „Átta af níu lögreglustjórum landsins bera ekki lengur traust til lögreglustjóra,“ segir Úlfar. „Þetta er búið að vera í gerjun í einhvern tíma. Ég lít svo á að ríkislögreglustjóri sé óstarfhæfur.“

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, er sá eini sem ekki tekur undir yfirlýsinguna. „Málið er í ákveðnum farvegi, á meðan svo er þá kýs ég ekki að tjá mig um málið,“ segir Ólafur aðspurður um málið.

Lögreglumenn lýsa einnig yfir vantrausti

Formannafundur Landssambands lögreglumanna samþykkti einnig vantraust á ríkislögreglustjóra í dag.

„Í ljósi þeirrar umræðu sem átt hefur sér stað um störf og framkomu ríkislögreglustjóra, Haraldar Johannessen, er orðið ljóst að hann nýtur ekki trausts lögreglumanna í landinu. Formannafundur Landssambands lögreglumanna lýsir því yfir vantrausti á ríkislögreglustjóra og skorar á Harald Johannessen að stíga nú þegar til hliðar,“ segir í tilkynningu frá sambandinu.

Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, segir niðurstöðu fundarins óháða ákvörðun lögreglustjóra um vantraust á Harald. „Það var búið að taka þá ákvörðun áður en nokkur vissi um viðbrögð þeirra. Þetta er algjörlega sjálfstæð ákvörðun þessa fundar og hefur ekkert að gera með ákvörðun lögreglustjóranna að gera. Engar upplýsingar voru komnar um vantraust þeirra.“

Viðtalið í Morgunblaðinu kornið sem fyllti mælinn

„Það er ekkert auðvelt að taka svona ákvörðun, en formenn um allt land sátu fundinn í dag. Rætt var um hlutina frá öllum hliðum og í kjölfarið var yfirlýsingin samþykkt af fundinum. Formenn allra deilda, níu manns, sátu fundinn.“

Aðspurður um hvort ákvörðunin hafi hlotið einróma samþykki segir Snorri. „Fundurinn samþykkti þetta,“ en vildi ekki svara því nánar.

„Gagnvart lögreglumönnum er það þetta viðtal ríkislögreglustjóra í Morgunblaðinu kornið sem fyllti mælinn endanlega,“ segir Snorri.

Hann tiltekur ekki einstök mál sem ástæðu vantraustsyfirlýsingarinnar en bendir á ýmis mál sem tínd hafa verið til í fjölmiðlum. „Þetta er sambland mála og viðtalið fyllti endanlega mælinn. Það er búið að vera óánægja lengi inna lögreglunnar og ólga innan stéttarinnar með ýmislegt gagnvart embætti ríkislögreglustjóra.“