Í hið minnsta tveir lög­reglu­menn banda­ríska þing­hússins hafa verið sendir í leyfi eftir sam­skipti sín við skríl Trumpista sem réðust inn í húsið síðast­liðinn mið­viku­dag.

Þetta hafa fjöl­miðlar vestan­hafs eftir Tim Ryan, full­trúar­deildar­þing­manni Demó­krata og for­manni þing­nefndar sem sér um mál­efni lög­reglunnar. „Einn var sá sem tók sjálfs­mynd með stuðnings­mönnunum og annar hafði sett á sig MAGA hatt og leið­beint fólki um húsið,“ segir Ryan.

Hann segist ekki vera viss um hvort að lög­reglu­maðurinn hafi „hleypt þeim inn“ eða „hleypt þeim út“ en Ryan segir að lög­reglu­stjóri hafi metið sem svo að að­gerðir þeirra kalli á að þeir verði sendir í leyfi þegar í stað.

Buzz­feed­News hefur eftir lög­reglu­stjóranum Yogananda Pitt­man að lög­regla fari nú yfir mynd­bönd og annað efni. Þar megi meðal annars sjá hvernig sumir lög­reglu­þjónar hafi brugðist skyldum sínum og brjóti gegn reglum.

„Innra eftir­lit mun rann­saka þessa hegðun og veita til­hlýðandi refsingu í kjöl­farið og í sumum til­vikum, mun þetta leiða til brott­reksturs,“ segir hún. Nú þegar hafi þó nokkrir lög­reglu­menn verið sendir í leyfi vegna brota.