Í hið minnsta tveir lögreglumenn bandaríska þinghússins hafa verið sendir í leyfi eftir samskipti sín við skríl Trumpista sem réðust inn í húsið síðastliðinn miðvikudag.
Þetta hafa fjölmiðlar vestanhafs eftir Tim Ryan, fulltrúardeildarþingmanni Demókrata og formanni þingnefndar sem sér um málefni lögreglunnar. „Einn var sá sem tók sjálfsmynd með stuðningsmönnunum og annar hafði sett á sig MAGA hatt og leiðbeint fólki um húsið,“ segir Ryan.
Hann segist ekki vera viss um hvort að lögreglumaðurinn hafi „hleypt þeim inn“ eða „hleypt þeim út“ en Ryan segir að lögreglustjóri hafi metið sem svo að aðgerðir þeirra kalli á að þeir verði sendir í leyfi þegar í stað.
BuzzfeedNews hefur eftir lögreglustjóranum Yogananda Pittman að lögregla fari nú yfir myndbönd og annað efni. Þar megi meðal annars sjá hvernig sumir lögregluþjónar hafi brugðist skyldum sínum og brjóti gegn reglum.
„Innra eftirlit mun rannsaka þessa hegðun og veita tilhlýðandi refsingu í kjölfarið og í sumum tilvikum, mun þetta leiða til brottreksturs,“ segir hún. Nú þegar hafi þó nokkrir lögreglumenn verið sendir í leyfi vegna brota.
Cops are taking selfies with the terrorists. pic.twitter.com/EjkQ83h1p2
— Timothy Burke (@bubbaprog) January 6, 2021