Lög­reglu­stjórinn í Ber­lín í Þýska­landi hefur beðist af­sökunar á fram­ferði lög­reglu­manna sem fóru í arm­beygju­keppni við minnis­merki um Hel­förina þar í borg.

Götu­blaðið BZ birti í gær myndir af lög­reglu­mönnum gera arm­beygjur á minnis­varðanum um myrta gyðinga í Evrópu, sem sam­settur er úr fjölda­mörgum stein­flötum sem líkjast graf­steinum. Þar eru um 2.700 stein­fletir úr grárri stein­steypu, stein­snar frá Branden­burg-hliðinu.

Að sögn blaðsins eru myndirnar úr mynd­skeiði sem lög­reglu­mennirnir tóku sjálfir á far­síma í maí er þeir voru á svæðinu vegna mót­mæla sem fram fóru í ná­grenni minnis­varðans. Hann er opinn allan sólar­hringinn og er ekki öryggis­gæsla þar en þau sem þangað koma eru beðin um að haga sér af virðingu þar.

Lög­reglu­þjónn gerir arm­beygjur á minnis­varðanum.
Mynd/BZ

Lög­reglu­stjórinn Barbara Slowik segir að málið verði kannað innan­húss.

„Hegðun kollega minna er van­virðing við það sem minnis­varðinn stendur fyrir og við minningu þeirra sem voru myrt,“ sagði Slowik.

GdP, stéttar­fé­lag lög­reglu­manna, hefur einnig beðist af­sökunar á málinu og „smekk­leysi“ fram­göngu lög­reglu­mannanna. Af­leiðingar þyrftu að vera af málinu. „Minnis­varðinn um Hel­förina er ekki leik­völlur,“ segir í yfir­lýsingu frá stéttar­fé­laginu.

Lögregluþjónarnir tóku myndskeið af sér gera armbeygjur.
Mynd/BZ