Í vikunni skrifuðu þau Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri og Fjölnir Sæmundsson, formaður Landssambands lögreglumanna, undir samkomulag um samstarf gegn kulnun í starfi á meðal lögreglumanna.

Markmiðið með samkomulaginu er að koma á fræðsluátaki um vinnutengda kulnun meðal lögreglumanna og eru þau Sigríður og Fjölnir sammála um að engin vanþörf sé þar á og þó ýmis úrræði séu í boði fyrir lögreglumenn til að létta á sér vanti mögulega fræðslu til að þeir nýti sér hana.

Sjálfsvíg annað hvert ár


Fjölnir bendir á að allavega annað hvert ár falli lögreglumaður fyrir eigin hendi en geri megi því skóna að talan sé hærri enda séu sjálfsvíg almennt vantalin hér á landi.

„Við hjá Landssambandinu fórum að velta þessari staðreynd fyrir okkur af því lögreglumönnum eru boðnar ýmsar leiðir, svo sem sálfræðiþjónusta og félagastuðningur. Af hverju er þetta ekki að virka?“

„Við hjá Landssambandinu fórum að velta þessari staðreynd fyrir okkur af því lögreglumönnum eru boðnar ýmsar leiðir, svo sem sálfræðiþjónusta og félagastuðningur. Af hverju er þetta ekki að virka?“

Fjölnir

Fjölnir segist hafa farið að velta fyrir sér hvort ekki þyrfti að gera eitthvað til að lögreglumenn nýti sér það sem er í boði.

„Hugmyndin er því að setja af stað þetta verkefni til að láta þessi úrræði virka,“ segir hann og bendir á að vitað sé hvers lags hjálp þurfi, þetta snúist um að hún sé nýtt.

Vildi brjóta þennan múr


Sigríður bendir á að vandinn liggi í menningunni sem lengi hefur verið við lýði innan lögreglunnar.

„Ég byrjaði til dæmis á Suðurnesjum fyrir margt löngu og þar sögðu mér eldri lögreglumenn að þegar þeir hættu í starfi, hefðu gömlu draugarnir og öll erfiðu útköllin skyndilega læðst aftan að þeim. Við ákváðum því að passa betur upp á þá sem voru að ljúka störfum. Við sáum líka ungt fólk sem var að fara í gegnum erfiðar upplifanir hjá okkur, eins og útköll þar sem börn eru í vanda, deyja jafnvel, sjálfsvíg og annað slíkt, þetta tekur gríðarlega á. Ég skyldaði því yfirmennina til að fara til sálfræðings,“ segir Sigríður enda fannst henni ekki hægt að búast við því að starfsfólkið leitaði sér hjálpar á meðan yfirmennirnir forðuðust það.

„Mér fannst við þurfa að brjóta þennan múr.“

Sigríður Björk segir vandann að miklu leyti liggja í menningunni sem lengi hafi verið við lýði innan lögreglunnar. Fréttablaðið/Eyþór

Sigríður var því ein þeirra sem þurftu að ganga fram með góðu fordæmi og lýsir hún fyrsta sálfræðitímanum sínum: „Ég byrjaði á að segja: Jæja, ég er nú bara hingað komin til að sýna gott fordæmi. Hann spurði þá á móti hvort ég vildi nú ekki ræða málin fyrst ég væri nú mætt og ég svaraði að það væri nú allt í lagi hjá mér,“ rifjar hún upp í léttum tón.

„Svo nær hann að tala mig til og ég byrja að tala og það endaði með því að hann þurfti að ýta mér út því tíminn var búinn. Þarna var ég að tala um hluti sem ég hafði ekki hugmynd um að hvíldu þungt á mér,“ segir Sigríður og bætir við að bæði hafi það verið atriði úr starfi og einkalífi.

„Mér er alveg sama hvað menn tala um. Svo lengi sem þeir mæti. Þannig ryðja þeir brautina.“

Tuttugu milljónir árlega


Sigríður bætir við að Embætti ríkislögreglustjóra greiði í kringum 20 milljónir á ári í sálfræðiþjónustu og hún sjái ekki eftir krónu þó í raun samsvari kostnaðurinn heilu stöðugildi.

„Þetta á bara að vera eitt tækjanna í tækjabeltinu okkar og ekki síst fyrir þá aðila sem vinna að viðkvæmum málum eins og barnaníði, kynferðisbrotum og öðrum alvarlegum brotum.“

„Þetta á bara að vera eitt tækjanna í tækjabeltinu okkar og ekki síst fyrir þá aðila sem vinna að viðkvæmum málum eins og barnaníði, kynferðisbrotum og öðrum alvarlegum brotum.“

Sigríður

Sigríður segir að embættið hafi nýlega gert svefnrannsókn á starfsfólki sem sýnt hafi að talsvert margir væru á hættumörkum sökum svefnskorts. Á hverju ári séu jafnframt gerðar ítarlegar heilbrigðisskoðanir og alltaf séu einhverjir sem greinist þar með lífsstílstengda kvilla.

„En það sem við höfum virkilega áhyggjur af er að þegar fólk fer í kulnun missum við sjónar á því og það missir um leið skjólið frá félögunum en hjá lögreglunni eru félagarnir svolítið hin fjölskyldan þín,“ segir hún og Fjölnir bætir við:

„Eins og þeir sem eru í fíkniefnamálunum, þeir lifa í öðrum heimi en við hin og mörkin þeirra geta færst. Þú ert alltaf á grensunni sem er erfitt og mjög erfitt fyrir heimilislífið.

„Eins og þeir sem eru í fíkniefnamálunum, þeir lifa í öðrum heimi en við hin og mörkin þeirra geta færst."

Fjölnir

Þegar starfsmenn mínir segjast ekki nenna að fara til sálfræðings til að ræða vinnuna bendi ég þeim á að þeir þurfi ekkert að tala um vinnuna: Talaðu bara um konuna þína – eða börnin,“ segir Fjölnir.

„Tengdó selur alltaf,“ skýtur Sigríður inn í. „Segðu þeim að tala um tengdó,“ segir hún og hlær.


Samviskubit tengt vaktavinnu


„Vaktavinna eykur mjög álagið á heimilislífið og það er kannski álagið sem þú tekur með þér í vinnuna, áhyggjurnar af því að þú sért ekki að sinna heimilinu sem skyldi. Samviskubitið yfir því að vera alltaf á vöktum og vera mögulega sofandi þegar aðrir eru vakandi,“ lýsir Fjölnir.

„Til að bæta gráu ofan á svart þá erum við undirmönnuð,“ segir Sigríður og bendir á að um 50 lögreglumenn séu útskrifaðir árlega.

„En þörf er á mun fleiri menntuðum lögreglumönnum á landsvísu og stytting vinnuvikunnar jók enn á þá þörf. Við erum komin í talsvert mikinn mínus og það vantar menntaða lögreglumenn. Þetta verður til þess að við þurfum að bæta á aukavinnu. Sem er algjörlega í andstöðu við það sem verkefnið gengur út á.“


Þurfum að hlusta á okkar fólk


Sigríður bendir jafnframt á að samfélagið hafi breyst mikið.

„Staðan í dag er sú að fólk vill fá að sinna börnunum sínum. Það er ekki lengur til í að vinna myrkranna á milli og taka á sig endalausa aukavinnu. Þetta er bara ekki gert lengur og við sjáum mjög mikinn mun á yngri og eldri kynslóðinni þegar kemur að þessu, rétt eins og alls staðar annars staðar í samfélaginu.

Yngri kynslóðinni finnst ekkert eðlilegt að vera alltaf með símann við höndina og tilbúin að stökkva af stað þegar kallið kemur. Við getum ekki ætlast til þess að það geri það, við þurfum að hlusta á okkar fólk.“

„Staðan í dag er sú að fólk vill fá að sinna börnunum sínum. Það er ekki lengur til í að vinna myrkranna á milli og taka á sig endalausa aukavinnu."

Sigríður

Sigríður bendir einnig á að ekki megi gleyma því hvaða áhrif Covid hefur haft á lögreglumenn. Hún lýsir því sem þeir hafi verið á flæðilínunni lengi og litið á Covid sem eins konar tímabundin uppgrip sem takast þurfi á við en svo hafi sannarlega lengst í því og það sé farið að taka sinn toll.


Segja fólki að fara að sofa


„Ég var að hlusta á ræðu Víðis Reynissonar á dögunum þar sem hann nefndi hina ýmsu starfsmenn embættisins, skrifstofufólk, lögfræðinga, tæknifólk og lögreglufólk í ýmsum ólíkum verkefnum. Allt þetta fólk hafði tekið að sér auka verkefni tengt Covid. Það er svo margt sem gerist á bak við tjöldin.

Rakningarteymið var til að mynda mannað af fólkinu sem fyrir var. Öll þessi verkefni sem þöndust út lögðust á fólkið sem var fyrir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að við séum tilbúin að grípa fólk ef það brennur yfir eða þarf utanaðkomandi aðstoð eftir þessa erfiðu tíma,“ segir hún.

Ríkislögreglustjóri og formaður Landssambands lögreglumanna hafa skuldbundið sig til að vinna saman gegn kulnun lögreglumanna í starfi. Fréttablaðið/Eyþór

„Lögreglan gerir allt sem enginn annar gerir, alveg sama hvaða verkefni það er,“ segir Fjölnir og lýsir því hvernig starf lögreglumannsins breyttist í heimsfaraldri.


„Við vorum farin að banna fólki að borða og senda það heim til sín að sofa,“ segir hann með tilþrifum og viðurkennir að það hafi verið farið að reyna á taugarnar.

„Að vera sífellt að segja fullorðnu fólki að fara heim að sofa því klukkan væri orðin tíu. Maður fór að hugsa með sér: Er þetta hlutverk lögreglunnar? Að segja fólki að fara að sofa?“

„Við vorum farin að banna fólki að borða og senda það heim til sín að sofa.“

Fjölnir

Hann bendir á að þessi útvíkkun lögreglustarfsins hafi ekki verið til að auka á vinsældir löggunnar.

„Ég lokaði til að mynda líkamsræktarstöð. Þú getur ímyndað þér hvernig það var að senda fólk út með þeim skýringum að það væri of nálægt hvert öðru að svitna í hóp.“

Fjölnir og Sigríður eru sammála um að þolinmæði fólks sé á þrotum og þau finni fyrir því.


Enginn undir þetta búinn


„Það sem við höfum líka áhyggjur af er að hlutfall ómenntaðra lögreglumanna er að aukast og er talið að þeir séu allt að 40 prósent þeirra sem eru á götunni. Það er meðal annars vegna styttingar vinnuvikunnar, við erum ekki að útskrifa nægilega marga lögreglumenn og oft er erfitt að fá lögreglumenn út á land,“ segir Fjölnir og útskýrir að á landsbyggðinni verði lögreglumenn að ganga í öll störf auk þess sem ómögulegt sé fyrir þá að hverfa í fjöldann.


„Þetta eykur auðvitað álagið á alla. Ef ég til dæmis er á vakt með fjórum en er eini lærði lögreglumaðurinn, þá ber ég einn ábyrgðina ef eitthvað klikkar. Við erum kannski að senda unga óundirbúna menntaskólakrakka í sumarvinnunni sinni, beint í banaslys. Það er enginn undir þetta búinn.“

„Við erum kannski að senda unga óundirbúna menntaskólakrakka í sumarvinnunni sinni, beint í banaslys. Það er enginn undir þetta búinn.“

Eins og fyrr segir eru ýmsir valkostir fyrir lögreglumenn til að létta á sér en samkvæmt Fjölni og Sigríði snýst verkefnið nú um að kynna þá kosti betur og fræða lögreglumenn um kosti þess að leita sér aðstoðar.


„Það eru alltaf viðrunarfundir eftir stór slys en það nægir ekkert öllum,“ segir Fjölnir en viðrunarfundur er eins konar áfallahjálp sem er stýrt af fagmanni.


Hættir að finna til


„Hjá lögreglumönnum er það oft þannig að þeir sem ekki tjá sig á fundinum líður illa. Vandinn hjá mörgum lögreglumönnum er að þeir eru löngu hættir að finna til.

Ég hef upplifað að koma að banaslysi og finna ekki fyrir því. Það kom mér á óvart og ég spurði þann sem var með mér hvort það hefði komið illa við hann. Hann svaraði þá að það sem honum hefði fundist verst við útkallið hefði verið hversu hratt ég ók.“

„Vandinn hjá mörgum lögreglumönnum er að þeir eru löngu hættir að finna til."

Aðspurður segist Fjölnir ekkert vita um hvort slíkur doði sé eðlileg afleiðing þess að koma oft að erfiðum slysum og aðstæðum en það sé eitt af því sem megi skoða.

„Þú kannast við þegar þér líður illa en veist ekki endilega hvað málið er ef þú finnur ekki fyrir neinu.“

Sigríður bendir jafnframt á að starf lögreglunnar hafi breyst mikið og í dag sé lögregluembættið ekki lengur valdastofnun heldur þjónustustofnun. Mikilvægt sé að lögreglan sé meðvituð um hvernig hún kemur fyrir enda geti lögreglu­afskipti verið stórmál fyrir almenna borgara.

„Ég fékk margsinnis til mín fólk með opin sár eftir stór áföll, vegna viðbragða lögreglu. Eitthvað sem var sagt á vettvangi eða að ekki var hlustað og þetta situr í fólki,“ segir Sigríður.

„Ég fékk margsinnis til mín fólk með opin sár eftir stór áföll, vegna viðbragða lögreglu."

Sigríður

„Lögreglan þarf að vera lærð. Það er stórmál fyrir marga að hitta lögreglu. Sumum finnst stórmál að vera stöðvaður fyrir of hraðan akstur á meðan okkur finnst það ómerkilegt enda kannski tíundi ökumaðurinn sem við stöðvum þann dag.“

Blaðamaður viðurkennir að vera ein þeirra sem alltaf líði sem glæpamanni ef hún lendir við hlið lögreglubíls á rauðu ljósi og uppsker hlátur lögreglunnar.

„Maður tekur eftir því að ef maður keyrir á eftir einhverjum fer hann allt í einu að keyra á löglegum hraða,“ segir Fjölnir.

Lífaldur lögreglumanna styttri


Ellilífeyrisaldur lögreglumanna miðast við 65 ár og bendir Fjölnir á að hann sé lægri í mörgum nágrannalöndum.

„Það er þekkt vandamál innan lögreglunnar að margir eru alveg búnir á því upp úr sextugu, síðustu árin í starfi,“ segir hann og jánkar því að þá sé oft reynt að færa menn til í starfi, inn á skrifstofu ef því er komið við.


„Lífaldur lögreglumanna er styttri en hjá öðrum stéttum, þeir deyja fyrr,“ segir Fjölnir með áherslu og er viss um að það megi rekja beint til álags í starfi.

„Lífaldur lögreglumanna er styttri en hjá öðrum stéttum, þeir deyja fyrr.“

Fjölnir

„Það þarf kannski bara að viðurkenna að þegar þeir eru sextugir megi þeir bara fara í einhver önnur störf innan embættisins.“

Talið berst aftur að þjónustuhlutverkinu og segir Sigríður nú mikilvægt að setja sig í spor bæði þeirra sem lögreglan þjónustar og samstarfsfólks síns.

„Og þá helst að skilja yngri kynslóðina sem er með aðrar áherslur. Að við missum ekki fólk í einsemd sem er að kljást við vanda sem hefur risið vegna of mikils álags.“

Lögreglunám á háskólastigi


Aðspurð um brottfall innan lögreglunnar segja þau það helst vera á fyrstu árunum og lengi vel hafi það verið mikið hjá konum áður en farið var í markvissar aðgerðir til að fjölga konum í stéttinni.

Lögreglunám er nú orðið tveggja til þriggja ára háskólanám við Háskólann á Akureyri ásamt starfsnámi sem Menntasetur lögreglunnar heldur utan um.

„Sú ákvörðun að færa námið á háskólastig var tekin til að breyta aðeins áherslum og vera samkeppnishæf við löndin í kring. Nú er hægt að kenna meira svo fólk komi betur undirbúið,“ segir Sigríður.

Hámarksaldur í lögreglunám hefur verið felldur niður en lágmarksaldurinn er enn tuttugu ár sem Fjölni finnst of ungt. Fréttablaðið/Eyþór

Í dag miðast aldurstakmark í lögreglunám við tuttugu ár en ekki er lengur um neinn hámarksaldur að ræða þó umsækjendur þurfi að standast ákveðin læknispróf.

„Að mínu mati mætti hækka aldurinn enda hefur enginn gott af því að fara tvítugur í lögreglubúning,“ segir Fjölnir ákveðinn.

„Það er bara mín skoðun. Það munar miklu að vera með lífsreynt fólk.“

„Að mínu mati mætti hækka aldurinn enda hefur enginn gott af því að fara tvítugur í lögreglubúning.“

Fjölnir

Verkefnið fram undan er enn svolítið ómótað en að sögn þeirra Fjölnis og Sigríðar stendur til að kalla alla að borðinu af öllu landinu og sjá hvar þörfin er.


„Við erum að skuldbinda okkur til að setja orku og fjármagn í þetta verkefni,“ segir Sigríður ákveðin og Fjölnir bætir við: „Ég er að vona að það að tala um þetta verði til þess að einhver ákveði að leita sér hjálpar.“