Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt íslenska ríkið til þess að greiða lögreglumanni tæpar 8,8 milljónir krónur í í bætur vegna slyss sem hann varð fyrir á valdbeitingarnámskeiði þar sem hann þjálfaði lögreglumenn fyrir ríkislögreglustjóra.

Fékk slink á háls og höfuð

Slysið átti sér stað þegar maðurinn sýndi lögreglumönnunum ákveðna tegund af neyðarvörn á námskeiðinu. Fram kemur í aðilaskýrslu lögreglumannsins að hann hafi fengið slink á háls og höfuð þegar hann sýndi lögreglumönnum aðferðirnar og hafi við það fundið mikinn verk og straum niður eftir vinstri handleggnum. Hann hafi þó haldið kennslu áfram.

Maðurinn leitaði sér aðstoðar hjá sjúkraþjálfara eftir slysið en hann glími enn við afleiðingar þess. Þá hafi bardagaíþróttir verið stór partur af lífi hans en hann geti ekki sinnt þeim lengur vegna þeirra meiðsla sem hann varð fyrir.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Fréttablaðið/ERNIR

Ríkið sagði engin vitni að slysinu

Íslenska ríkið byggði sína sýknukröfu á því að lögreglumaðurinn hefði ekki fært nægilegar sönnur fyrir því að hann hefði lent í slysinu umræddan dag og með þeim hætti sem hann lýsti í stefnu sinni. Því hafi ríkið hafnað því að það væri skaðabótaskylt í málinu.

Þá taldi ríkið að ekki lægi fyrir fullnægjandi sönnun um að atvikið hefði átt sér stað umræddan dag, engin vitni hafi verið að atvikinu og þá hafi maðurinn ekki leitað til læknis fyrr en fimm dögum eftir að það átti sér stað. Þá var bent á að yfirlýsingar mannsins voru gefnar löngu eftir atvikið og lýstu ekki atvikinu sjálfu.

Samkvæmt ákvæði í kjarasamningi Landssambands lögreglumanna eiga lögreglumenn rétt á skaðabótum frá ríkinu verði þeir fyrir áverkum eða meiðslum er þeir sinna starfi sínu.

Niðurstaða dómsins var að lögreglumaðurinn hefði verið að sinna störfum sínum þegar slysið gerðist. Dómurinn tók þá sérstaklega til greina vitnisburð samstarfsmanna mannsins um að hann hefði orðið fyrir slysi á námskeiðinu og að hann hefði kennt sér mein eftir það.

Auk skaðabótagreiðslu var íslenska ríkinu gert að greiða lögreglumanninum tæpar 1,2 milljónir króna í málskostnað.