Lögreglumaður skaut svarta konu á þrítugsaldri til bana í gegnum svefnherbergisglugga hennar í Texas í gærnótt. Lögregla hafði verið beðin um að athuga hvort ekki væri í lagi með hana eftir að nágranni hennar tilkynnti um að útidyrahurð hennar hefði staðið opin yfir nóttina.

Hin 28 ára gamla Atatiana Jefferson bjó í íbúðinni, í borginni Fort Worth, ásamt 8 ára gömlum frænda sínum. Lögregluyfirvöld hafa gert myndskeið af atvikinu opinbert. Þar má sjá lögreglumanninn skjóta hana í gegnum svefnherbergisglugga hennar nánast um leið og hann kemur auga á hana.

Skaut nánast um leið og hann sá hana

Myndbrotið, sem er úr innbyggðri myndavél á búningi lögreglumannsins, hefst þegar hann er að kanna aðstæður í kringum húsið. Þá sér hann manneskju í gegnum gluggann og segir henni að reisa hendur upp í loft áður en hann skýtur hana svo í gegnum rúðuna.

Hér má sjá myndband af atvikinu sem lögreglan sendi frá sér:

Lögregluyfirvöld í borginni hafa gefið út yfirlýsingu þar sem sagt er að lögreglumanninum, sem er hvítur á hörund, hafi verið hótað og þess vegna hafi hann hleypt skotinu af. Hann hefur verið settur í starfsleyfi á meðan rannsókn á málinu fer fram.

Í myndbandinu má ekki heyra að lögreglumaðurinn greini konunni frá því að hann sé lögreglumaður. Lögregluyfirvöld birtu þá aðeins hluta myndbandsins og svo myndir af vopni sem þau segja að hafi fundist inni í svefnherberginu. Þannig er ekki ljóst hvort að konan hafi verið með byssuna í hendi sér en í Texas er löglegt fyrir alla sem eru eldri en 18 ára að eiga skotvopn.

Lögreglan segir þá að Atatiönu Jefferson hafi verið veitt skyndihjálp inni í svefnherberginu, sem hafi ekki skilað árangri, og hún verið úrskurðuð látin á staðnum.

Var í tölvuleik með litla frænda

Samkvæmt lögfræðingi fjölskyldu Jefferson var hún að spila tölvuleik við litla frænda sinn áður en hún fór inn í svefnherbergi til að kanna hver væri fyrir utan húsið. „Móðir hennar veiktist illa nýlega svo að hún hafði verið heima að sjá um heimilið og naut sín mjög vel,“ segir í yfirlýsingu lögfræðingsins. „Það var engin ástæða fyrir morði hennar. Ekki nein. Við verðum að ná fram réttlæti.“

Aðeins eru tvær vikur síðan að lögreglu maður var dæmdur í fanglesi fyrir að skjóta svartan mann til dauða í íbúð sinni í borginni Dallas, sem er einnig í Texas. Mögulegt forsetaefni Demókrata, Beto O'Rourke, sem er frá fylkinu, hefur tjáð sig um málið. „Á meðan við syrgjum með fjölskyldu Atatiönu verðum við líka að krefjast þess að ábyrgð verði tekin í þessu máli og megum ekki hætta að berjast fyrr en ljóst er að engin fjölskylda þurfi að ganga í gegnum harmleik sem þennan á ný,“ sagði hann í færslu á Twitter.

Frétt BBC um málið.