Andlát lögreglumanns sem lést í kjölfar óeirðanna við þinghúsið í Washington á miðvikudag verður rannsakað. Lögreglan á Capitol-hæð í Washington, D.C. tilkynnti seint í gær að lögreglumaður sem slasaðist í vikunni í átökum við mótmælendur sem ruddust inn í þinghúsið lést af meiðslum sínum seint í gærkvöldi. Alls eru þá fimm látin í kjölfar óeirðanna sem brutust út á miðvikudag í Washington, D.C.

Í tilkynningu kom fram að lögreglumaðurinn, Brian Sicknick, var að störfum í óeirðunum og meiddist í átökum við mótmælendur. Eftir að hann kom aftur á skrifstofu sína þá féll hann niður og var síðar fluttur á spítala þar sem hann lést.

Fram kemur í frétt NPR um málið að allt að 50 sakamál verði höfðuð gegn ofstækismönnum og stuðningsmönnum Donald Trump sem tóku þátt í árásinni á miðvikudag.

Þrír hafa sagt starfi sínu lausu sem sjá um löggæslumál þingsins á Capitol-hæð í kjölfar óeirðanna vegna þess að ekki var hægt að tryggja öryggi þinghússins. Frá því er greint á AP News.

Þjóðarleiðtogar víða um heim hafa fordæmt árásina og sagt hana árás á lýðræðið sjálft, þar með talin forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og forsætisráðherrann, Katrín Jakobsdóttir.