Bandarískur lögreglumaður lést á spítala í dag eftir árás sem gerð var fyrir utan þinghúsið í Washington. Maður keyrði þar bíl sínum á tvo lögreglumenn og reyndi síðan að ráðast að fleirum. Árásarmaðurinn var skotinn niður og lést af sárum sínum á spítala skömmu síðar.
Á blaðamannafundi sem lögreglan hélt fyrir skömmu kom fram að ekki sé talið að maðurinn tengist hryðjuverkahópum. Ekki er vitað hvert ástand hins lögreglumannsins sem var fluttur á spítala er.
Lögreglumaðurinn var sá annar á þessu ári til að látast eftir árás á þinghúsið en sá fyrri lést í janúar þegar stuðningsmenn þáverandi forsetans Donalds Trumps réðust inn í bygginguna.
Lögreglustjóri lögreglunnar í þinghúsinu sagði á blaðamannafundinum í dag að árásarmaðurinn hefði ekið bíl sínum inn á svæði norðan þinghússins. Hann hafi síðan keyrt niður tvo lögreglumenn og síðan klesst á vegatálma fyrir utan þinghúsið.
„Þá fór maðurinn út úr bílnum með hníf í hendinni. Lögreglumenn okkar hróuðu þá til hans en hann varð ekki við skipunum þeirra,“ sagði lögreglustjórinn Yogananda Pittman. „Maðurinn óð þá að lögreglumönnum okkar og var þá skotinn niður. Hann hefur nú verið úrskurðaður látinn.
