Banda­rískur lög­reglu­maður lést á spítala í dag eftir árás sem gerð var fyrir utan þing­húsið í Was­hington. Maður keyrði þar bíl sínum á tvo lög­reglu­menn og reyndi síðan að ráðast að fleirum. Á­rásar­maðurinn var skotinn niður og lést af sárum sínum á spítala skömmu síðar.

Á blaða­manna­fundi sem lög­reglan hélt fyrir skömmu kom fram að ekki sé talið að maðurinn tengist hryðju­verka­hópum. Ekki er vitað hvert á­stand hins lög­reglu­mannsins sem var fluttur á spítala er.

Lög­reglu­maðurinn var sá annar á þessu ári til að látast eftir árás á þing­húsið en sá fyrri lést í janúar þegar stuðnings­menn þá­verandi for­setans Donalds Trumps réðust inn í bygginguna.

Lög­reglu­stjóri lög­reglunnar í þing­húsinu sagði á blaða­manna­fundinum í dag að á­rásar­maðurinn hefði ekið bíl sínum inn á svæði norðan þing­hússins. Hann hafi síðan keyrt niður tvo lög­reglu­menn og síðan klesst á vega­tálma fyrir utan þing­húsið.

„Þá fór maðurinn út úr bílnum með hníf í hendinni. Lög­reglu­menn okkar hróuðu þá til hans en hann varð ekki við skipunum þeirra,“ sagði lög­reglu­stjórinn Yogananda Pitt­man. „Maðurinn óð þá að lög­reglu­mönnum okkar og var þá skotinn niður. Hann hefur nú verið úr­skurðaður látinn.

Yogananda Pittman, lögreglustjóri lögregluliðs þinghússins.
Fréttablaðið/AFP