Harður árekstur varð á Kirkjubæjarklaustri í dag þegar ferðamaður á jeppa ók framan á lögreglubíl. Lögreglumaður var fluttur til aðhlynningar á Selfoss en hann er ekki alvarlega slasaður að sögn Sveins Kristjáns Rúnarssonar, yfirlögregluþjóns á Suðurlandi.

Áreksturinn atvikaðist rétt eftir hádegi þannig að ferðamaðurinn ók jeppanum á móti umferð inn í hringtorg með þeim afleiðingum að hann ók beint framan á lögreglubíl. Vísir greindi fyrst frá málinu.

Áreksturinn var nokkuð harður og eru báðir bílar mikið skemmdir. Að sögn Sveins var aðeins einn lögreglumaður í bílnum og var hann nokkuð lemstraður eftir atvikið. Hann var fluttur til aðhlynningar á Selfossi en er ekki alvarlega slasaður. Ferðamaðurinn slasaðist ekki og var því ekki fluttur á Selfoss.