Lögreglumaður í San Jose í Kaliforníuríki hefur verið ákærður fyrir að stunda sjálfsfróun í miðju útkalli.

Það var fjölskylda sem óskaði eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem ekki hlýddi nálgunarbanni sem hann hafði áður verið úrskurðaður í vegna meints heimilisofbeldis. Þetta kemur fram á vef bandaríska miðilsins SFGATE.

Lögreglumaðurinn, Matthew Dominguez, var meðal þeirra sem svöruðu kallinu og sá um að taka viðtöl við fjölskyldumeðlimi.

Í yfirlýsingu sem fjölskyldan hefur gefið út kom fram að hann hefði við rannsókn á vettvangi sýnt 23 ára gamalli dóttur þeirra óeðlilega mikinn áhuga.

Þá hefði hann í miðjum samræðum við fjölskylduna rennt niður buxnaklauf sinni og nuddað klof sitt óeðlilega mikið.

Skömmu síðar hafi lögreglumaðurinn gengið inn í eldhús fjölskyldunnar þar sem hann dró fram getnaðarlim sinn og stundaði sjálfsfróun í vitna viðurvist.

„Hegðun lögreglumannsins er verri en það sem kallast mætti truflandi“ sagði Jeff Rosen ríkissaksóknari Santa Clara sýslu um málið. „Lögreglumenn eiga bregðast við útköllum á heimili okkar til þess að hjálpa fórnarlömbum glæpa en ekki búa til ný.“

Lögreglumaðurinn hefur verið settur í ótímabundið leyfi á meðan rannsókn stendur.