Lögreglufélag Suðurlands og Austurlands lýsa yfir stuðningi við Landssamband lögreglumanna, og taka undir með sambandinu um að ríkisendurskoðun á ríkislögreglustjóra sé löngu tímabær.

Ríkislögreglustjóri furðar sig á yfirlýsingu Landssamband lögreglu og segir engar kvartanir hafa borist embættinu. Yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra sagði í viðtali við RÚV í gær að hann vilji sameina öll lögregluembætti undir einn hatt en Lögreglufélag Suðurlands segir þær hugmyndir ótímabærar og til þess fallnar að afvegaleiða umræðuna.

Góð samvinna milli lögregluembætta

Auk þess sendi Lögreglustjórafélag Íslands frá sér yfirlýsingu og sagði meinta valdabaráttu og togstreitu um fjármuni ekki eiga sér stað milli lögregluembætta í landinu, þvert á yfirlýsingar ríkislögreglustjóra.

„Nýlegar breytingar á skipan lögreglumála hafa gefist vel og hefur veriđ góđ samvinna milli lögregluembætta. Ríkislögreglustjóri sætir gagnrýni. Þeirri gagnrýni verđur ekki svarađ međ bollaleggingum ríkislögreglustjóra um breytta skipan löggæslu í landinu,“ segir í tilkynningu Lögreglustjórafélagsins.

Ríkislögreglustjóri ætti að stíga til hliðar

Djúpur ágreiningur milli embættis ríkislögreglustjóra og lögregluembætta landsins hefur birst landsmönnum í umfjöllun fjölmiðla síðastliðna mánuði.

Fréttablaðið fjallaði um bílamál lögreglunnar í mars og þá óánægju sem gætir hjá lögregluumdæmum landsins með reksturinn. Þá herma heimildir blaðsins að rekstur Bílamiðstöðvarinnar sé ekki aðgreindur frá öðrum rekstri ríkislögreglustjóra og því ekki hlaupið að því að fá skýra yfirsýn yfir reksturinn.

Þá hefur ósætti kraumað undir yfirborðinu í þónokkurn tíma og á málið sér langan aðdraganda.

Í gær sagði Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri ætti stígi til hliðar á meðan Ríkisendurskoðun gerir heildarúttekt á embættinu. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Sagði sig úr Lög­reglu­fé­laginu

Ásgeir Karlsson, yfirmaður greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sagði ummæli Arinbjarnar óviðeigandi og hefur hann sagt sig úr Lögreglufélagi Reykjavíkur.

„Þetta er bara mjög óviðeig­andi og alrangt. Þótt verið sé kannski að hafa þetta eft­ir nokkr­um ein­stak­ling­um þá end­ur­spegl­ar það ekki álit allra starfs­manna rík­is­lög­reglu­stjóra. Þótt ein­hverj­ir séu óánægðir með eitt­hvað er auðvitað ekki hægt að heim­færa það yfir á alla,“ sagði Ásgeir í samtali við mbl.is.

Ágreiningurinn kasti rýrð á störf lögreglu

„Sú staða sem upp er komin í fata- og bílamálum lögreglu er að mati félagsins ekki líðandi og skorar LFS á nýjan dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að þeim málum verði fundinn ásættanlegur farvegur hratt örugglega.“ segir í yfirlýsingu Lögreglufélags Suðurlands.

„Ágreiningur sá sem nú er uppi milli lögreglustjóra í landinu og ríkislögreglustjóra, m.a. vegna málefna bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra, er til þess fallinn að kasta rýrð á störf lögreglu og mun á endanum koma að mestu niður á öryggi lögreglumanna og almennings í landinu,“ segir Lögreglufélag Suðurlands.