Enn hefur lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu engar fréttir fengið af ferðum Ævars Annel Val­garðs­sonar en lýst var eftir honum síðasta föstu­dag. Frétta­blaðið hefur heimildir fyrir því að Ævar sé í felum og vilji ekki gefa sig fram við lög­reglu.


Eins og greint hefur verið frá birtist mynd­band á sam­fé­lags­miðlum þar sem maður sést ganga í skrokk á Ævari. Maðurinn var í kjöl­farið hand­tekinn en sleppt að lokinni yfir­heyrslu. Hann var svo hand­tekinn í annað sinn síðasta fimmtu­dag í um­fangs­miklum að­gerðum lög­reglu á höfuð­borgar­svæðinu og úr­skurðaður í tveggja vikna gæslu­varð­hald.

Bensín­sprengju var í vikunni kastað inn um glugga á íbúð þessa manns í Úlfarsár­dal og kom upp eldur í í­búðinni. Síðasta föstu­dag var svo annarri bensín­sprengju kastað á hús á Freyju­götu. Síðar kom í ljós að sá sem seinni bensín­sprengjunni var að öllum líkindum beint að var fluttur úr húsinu á Freyju­götu.


Í sam­tali við Frétta­blaðið í dag segir Ás­geir Þór Ás­geirs­son, yfir­lög­reglu­þjónn á höfuð­borgar­svæðinu, að Ævar sé enn ekki kominn í leitirnar. Hann vill lítið segja um hvers vegna hans sé leitað en segir lög­reglu vilja ná tali af honum. Sem fyrr segir herma heimildir Frétta­blaðsins að Ævar sé í felum. Ás­geir segist skora á Ævar að gefa sig fram sem fyrst.

Ævar er 20 ára gamall, 174 sm á hæð, grann­vaxinn með dökkt hár. Þeir sem geta gefið upp­­­lýsingar um ferðir Ævars, eða vita hvar hann er niður­­kominn, eru vin­­sam­­legast beðnir um að hafa tafar­­laust sam­band við lög­­regluna í síma 112.