Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því í Facebook-færslu að henni hafi borist kvartanir vegna rjúpnaveiðimanna sem hafa sótt veiðar innan lögregluembættisins á fjórhjólum.
„Hafa þessir aðilar verið með skotvopn um hönd við athæfið en það telst brot á lögum á nokkra vegu; fyrir það fyrsta er öll meðhöndlun hlaðinna skotvopna bönnuð á eða við farartæki nær en 250m, vopn skal ekki meðhöndla opinberlega og við burð og flutning á skotvopnum milli staða skulu þau vera óhlaðin og í umbúðum,“ segir í færslu lögreglunnar.
Tekið er fram að þetta eigi einnig við um flutning vopns til og frá veiðislóð og að ekki megi skjóta á, yfir eða frá vegi þar sem slíkt geti skapað stórhættu.
„Þá er einnig með öllu óheimilt að vera á vélknúnum ökutækjum við rjúpnaveiðar en þau má einungis nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegslóðum og þá með vopnin með fyrrnefndum hætti. Þrátt fyrir að í náttúruverndarlögum sé kveðið á undantekningu á banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega vegna snjóalaga þá á það ekki við í þeim tilfellum þar sem veiðimenn eru fluttir á veiðilendur.“
Lögreglan brýnir fyrir þeim sem verða varir við slík brot eða frétta af brotum sem þessum og/eða öðrum brotum að hafa samband við neyðarlínu og tilkynna athæfið. Þá brýnir lögreglan fyrir þeim sem stunda veiðar að heimild er í lögum til að gera skotvopn, afla og ökutæki upptæk við brot sem og að beita fjársektum.