Lög­reglan á Vest­fjörðum greinir frá því í Face­book-færslu að henni hafi borist kvartanir vegna rjúpna­veiði­manna sem hafa sótt veiðar innan lög­reglu­em­bættisins á fjór­hjólum.

„Hafa þessir aðilar verið með skot­vopn um hönd við at­hæfið en það telst brot á lögum á nokkra vegu; fyrir það fyrsta er öll með­höndlun hlaðinna skot­vopna bönnuð á eða við farar­tæki nær en 250m, vopn skal ekki með­höndla opin­ber­lega og við burð og flutning á skot­vopnum milli staða skulu þau vera ó­hlaðin og í um­búðum,“ segir í færslu lög­reglunnar.

Tekið er fram að þetta eigi einnig við um flutning vopns til og frá veiði­slóð og að ekki megi skjóta á, yfir eða frá vegi þar sem slíkt geti skapað stór­hættu.

„Þá er einnig með öllu ó­heimilt að vera á vél­knúnum öku­tækjum við rjúpna­veiðar en þau má einungis nota til að flytja veiði­menn til og frá veiði­lendum og þá ein­göngu á vegum eða merktum veg­slóðum og þá með vopnin með fyrr­nefndum hætti. Þrátt fyrir að í náttúru­verndar­lögum sé kveðið á undan­tekningu á banni við akstri vél­knúinna öku­tækja utan vega vegna snjóa­laga þá á það ekki við í þeim til­fellum þar sem veiði­menn eru fluttir á veiði­lendur.“

Lög­reglan brýnir fyrir þeim sem verða varir við slík brot eða frétta af brotum sem þessum og/eða öðrum brotum að hafa sam­band við neyðar­línu og til­kynna at­hæfið. Þá brýnir lög­reglan fyrir þeim sem stunda veiðar að heimild er í lögum til að gera skot­vopn, afla og öku­tæki upp­tæk við brot sem og að beita fjár­sektum.