Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu varar við svika­póstum sem eru að berast fólki í skila­boðum á Face­book. Fólk eldra en fimm­tugt er sér­stak­lega beðið um að hafa varann á.

Dæmi um skila­boð sem eru að berast fólki eru „Hæ geturu gefið mér síma­númerið þitt?“ og „Takk Ég er að senda þér sms í keppni Ef þú færð SMS með kóða, sendu mér það.“

Að sögn lög­reglu eru skila­boðin send frá Face­book vini eða ættingja, Siggu, Nonna, Blæ eða ein­hverjum sem er vinur. Lög­reglan segir að það sé fólk sem hefur tapað að­gangi sínum og svindlarar noti nú þeirra prófíl til að reyna mis­nota kort og komast inn á heima­banka fólks.

„Ef þið fáið svona texta þá eru yfir­gnæfandi líkur á því að þetta sé svindl og ef þið eigið að fá peninga þá er það klárt svindl,“ segir lög­reglan.

Al­gengt er að fólk yfir fimm­tugt falli fyrir slíkum svikum að sögn lög­reglunnar.

„Brota­þoli er leiddur í gegn um sykur­húðaða lygi á meðan glæpa­mennirnir safna þeim upp­lýsingum sem þeir þurfa og fá síðan brota­þola til að stað­festa færslur með raf­rænum hætti. En allan tímann er þolandinn fastur í lyga­sögu. Lyga­sögu þar sem ná­komin kemur við sögu og jafn­vel von á vinningi,“ segir lög­reglan.

Svikin geta tekið að­eins fimm­tán mínútur. Lög­reglan segir að ný­verið hafi þeim verið til­kynnt um mál þar sem fólk tapi fleiri milljónum í svikum.

Lög­reglan bendir fólki á nokkrar góðar reglur sem á að hafa í huga.

  • Verið tor­tryggin á skrýtin skila­boð frá vinum á sam­fé­lags­miðlum (face­book/Insta­gram o.s.frv.)
  • Alls ekki taka myndir af kortum og setja þær á sam­fé­lags­miðla
  • Ekki stað­festa kóða í síma sem leiða frá svona spjalli
  • Ef þetta er skrítið, hættið þessum sam­skiptum og hringið í þennan vin ykkar og kannið hvað er í gangi
  • Texta­myndir eru hættu­merki, nema frá börnum. Ef þið fáið þau frá vinum sem eru ekki vön að nota þau, þá eru það lík­lega aðrir sem eru búnir að stela reikningi þeirra.