Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við svikapóstum sem eru að berast fólki í skilaboðum á Facebook. Fólk eldra en fimmtugt er sérstaklega beðið um að hafa varann á.
Dæmi um skilaboð sem eru að berast fólki eru „Hæ geturu gefið mér símanúmerið þitt?“ og „Takk Ég er að senda þér sms í keppni Ef þú færð SMS með kóða, sendu mér það.“
Að sögn lögreglu eru skilaboðin send frá Facebook vini eða ættingja, Siggu, Nonna, Blæ eða einhverjum sem er vinur. Lögreglan segir að það sé fólk sem hefur tapað aðgangi sínum og svindlarar noti nú þeirra prófíl til að reyna misnota kort og komast inn á heimabanka fólks.
„Ef þið fáið svona texta þá eru yfirgnæfandi líkur á því að þetta sé svindl og ef þið eigið að fá peninga þá er það klárt svindl,“ segir lögreglan.
Algengt er að fólk yfir fimmtugt falli fyrir slíkum svikum að sögn lögreglunnar.
„Brotaþoli er leiddur í gegn um sykurhúðaða lygi á meðan glæpamennirnir safna þeim upplýsingum sem þeir þurfa og fá síðan brotaþola til að staðfesta færslur með rafrænum hætti. En allan tímann er þolandinn fastur í lygasögu. Lygasögu þar sem nákomin kemur við sögu og jafnvel von á vinningi,“ segir lögreglan.
Svikin geta tekið aðeins fimmtán mínútur. Lögreglan segir að nýverið hafi þeim verið tilkynnt um mál þar sem fólk tapi fleiri milljónum í svikum.
Lögreglan bendir fólki á nokkrar góðar reglur sem á að hafa í huga.
- Verið tortryggin á skrýtin skilaboð frá vinum á samfélagsmiðlum (facebook/Instagram o.s.frv.)
- Alls ekki taka myndir af kortum og setja þær á samfélagsmiðla
- Ekki staðfesta kóða í síma sem leiða frá svona spjalli
- Ef þetta er skrítið, hættið þessum samskiptum og hringið í þennan vin ykkar og kannið hvað er í gangi
- Textamyndir eru hættumerki, nema frá börnum. Ef þið fáið þau frá vinum sem eru ekki vön að nota þau, þá eru það líklega aðrir sem eru búnir að stela reikningi þeirra.