Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við miklum fjölda svikapósta sem fólki berst um þessar mundir og hvetur fólk til að vera tortryggið. Tilgangur tölvupóstanna er að blekkja fólk til að leggja pening inn á óprúttna aðila, undir því yfirskini vera raunveruleg fyrirtæki.
„HOLSKEFLA AF SVIKATILRAUNUM
Temjið ykkur tortryggni og sparið 160.000 kr. eða meira.
Það rignir inn tilkynningum um tilraunir til að svíkja fé af fólki í nafni póstsins, DHL og Netflix. Við vitum líka til þess að nokkur fjöldi einstaklinga hefur fallið í þessa gildru“, segir lögreglan.
Vissara að grandskoða tölvupóstana
Tilkynningarnar séu margar ansi raunverulegar og hvetur hún fólk til að skoða þær vandlega, þá komi oft í ljós að ekki er allt með felldu.
„Ef þið gefið ykkur tíma til að skoða tenglana eða heimasíðurnar þá ætti að vera ósamræmi milli þeirra og þess sem þeir þykjast vera. Þá eru oft einkennilegir agnúar á skeytunum, vitlaus gjaldmiðill og þess háttar. Þá er oft óskað eftir staðfestingu í síman og það skal grandskoða, því þar er oft allt önnur upphæð.“
„Nú kann einhverjum að þykja að við séum að vara of mikið við þessu en svo er ekki. Þetta er því miður að virka hjá þessum glæpasamtökum og það er sárt að tapa 160.000 kr. fyrir augnabliks gáleysi. Endilega deilið þessu með vinum ykkar og reynum að stöðva þetta. Því þannig er það með forvarnir, það þarf alltaf að halda þeim vð.“
Lögregla hvetur fólk til að hafa samband við sig sé það í vafa um áreiðanleika tölvupósts.