Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við flughálku á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið. Ökutæki og starfsmenn sem sjá um söltun eiga í erfiðleikum vegna mikillar hálku, segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Á sjötta tímanum í gærkvöld var ölvaður maður handtekinn en hann hafði valdið skemmdum í sameign í fjölbýlishúsi og var hann vistaður í fangaklefa sökum ástands.

Um miðnætti var lögreglu tilkynnt um slagsmál í miðbæ Reykjavíkur. Einn var handtekinn og fluttur lögreglustöð. Einn slasaðist og var fluttur á bráðamóttöku Landsspítala til skoðunar.

Á fimmta tímanum í morgun óskaði leigubílstjóri eftir aðstoð vegna farþega sem neitaði að greiða fargjaldið. Hann hafði reynt að hlaupa undan, en lögregla náði tali af honum.

Einn var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og vímuefni og fluttur á lögreglustöð í sýnatöku.

Þá var tilkynnt um trampólín sem að hafi fokið úr garði í Mosfellsbæ.