Samkvæmt upplýsingum norska ríkisútvarpsins, NRK hefur lögreglan nú skýra mynd af því hvað gerðist þegar Anne-Elisabeth Hagen hvarf sporlaust af heimili sínum fyrir tæpum tveimur árum.

Nýjar upplýsingar hafa líklegast fengist við síðustu húsleit á heimili Hagen-hjónanna og meintum glæpstað. Rannsókn á heimili hjónanna er nú lokið en lögregla vill ekki veita frekari upplýsingar.

Lögreglan hefur áður sagt að hún telji að hin 68 ára gamla Anne-Elisabeth Hagen hafi verið myrt á heimilinu áður en líkið var fjarlægt.

Nýjar vísbendingar

Það er meðal annars með hjálp merkja úr farsíma Anne-Elisabeth að lögreglan hefur náð að kortleggja hvarf hennar frá heimili hennar í Lorenskógi. Í minni símans hefur lögreglan fundið hreyfigögn sem segja til um hvernig síminn hennar hreyfðist að morgni dagsins sem hún hvarf.

Samkvæmt heimildum NRK voru engar líkamlegar hreyfingar skráðar í farsímann eftir klukkan 10.07 þann 31. október 2018. Rétt fyrir klukkan 10.07 telur lögreglan sig hafa fundið gögn sem benda til skjótra skrefa og skyndilegra hreyfinga á stuttum tíma. Lögreglan heldur því fram að það hafi ekki verið Anne-Elisabeth sjálf sem hafi borið ábyrgð á þessum hreyfingum.

Tom Hagen á að hafa sagt í yfirheyrslum á sínum tíma að hann hafi fundið símann hennar á fyrstu hæð hússins á stað þar sem hún lagði hann aldrei frá sér.
Hvers vegna síminn var þar sem hann var þegar Tom Hagen kom heim er ein af mörgum spurningum sem lögreglan hefur reynt að finna svör við.

Tom megi flytja í húsið á ný

Fyrr í vikunni tilkynnti lögreglan að eiginmanni Anne-Elisabeth, auðkýfingnum Tom Hagen væri nú heimilt að flytja aftur á sameiginlegt heimili þeirra hjóna, sem lögreglan hefur girt af síðan í apríl. Tom Hagen var handtekinn vegna gruns um aðild að hvarfi konu sinnar í lok apríl en honum var sleppt eftir tæplega tveggja vikna gæsluvarðhald, þó að sterkur grunur lægi enn fyrir að hann bæri ábyrgð á hvarfi hennar. Tom Hagen hefur alltaf neitað sök.

Ekkert lík hefur fundist en lögreglan telur ekki að Anne-Elisabeth Hagen hafi yfirgefið heimilið lifandi.