„Við leigðum slíkan bíl í síðasta gosi en almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra tók ákvörðun um að kaupa slíka bíla fyrir embættið,“ sagði Hjálmar. Að mati Hjálmars eru bílarnir gríðarleg öryggistæki og munu nýtast vel á þessum tímum. „Þeir útvíkka það svæði sem við getum náð til og geta ekið inn í Öskju þess vegna. Við fengum að ganga inn í pantanir hjá Björgunarsveitinni og kunnum þeim miklar þakkir fyrir en þar nota menn einnig slíka bíla í enn öflugri útfærslum.“ Bílarnir sem lögreglan fær eru fjögurra manna Can-Am Commander 1000 og koma með 100 hestafla Rotaxvélum. Um létta bíla er að ræða með 330 mm veghæð enda koma þeir á 28 tommu dekkjum. Hægt er að velja á milli tvíhjóla- eða fjórhjóladrifs með driflæsingu. Bílarnir koma með veltibúri og hurðum auk flutningspalls að aftan.