Opinn fundur verður í undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar klukkan 10.45 í dag. Á fund nefndarinnar koma Trausti Fannar Valsson, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, og Ragnhildur Helgadóttir, rektor Háskólans í Reykjavík, og fjalla um lögfræðileg álitaefni í tengslum við verkefni nefndarinnar. Hægt verður að fylgjast með beinni útsendingu af fundinum á vef Fréttablaðsins, frettabladid.is.

Aðspurður segist Birgir Ármannsson, formaður nefndarinnar, gera ráð fyrir því að lögregla svari upplýsingabeiðni nefndarinnar í dag, en fyrr í vikunni óskaði nefndin upplýsinga um rannsókn lögreglu á talningu í Norðvesturkjördæmi. Rannsókninni er lokið og hefur málinu verið vísað til ákærusviðs.