Landssamband lögreglumanna styður kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir þeirra sem hefjast þann 22. júní næstkomandi.

„Stjórn Landssambands lögreglumanna lýsir yfir fullum stuðningi við hjúkrunarfræðinga í aðgerðum þeirra og hvetur landssambandið stjórnvöld til að koma nú af alvöru og krafti í samningaviðræður við þá sem og aðra sem eru samningslausir,“ segir í ályktun stjórnar Landssambands lögreglumanna.

Hjúkrunarfræðingar samþykktu í dag verkfallsboðun með miklum meirihluta. Ríflega 85 prósent greiddu atkvæði með boðun ótímabundins verkfalls.

„Samningaviðræður hafa nú staðið yfir í rúman mánuð eftir að hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning í lok apríl. Mikið ber á milli aðila þegar kemur að launalið nýs kjarasamnings. Krafa hjúkrunarfræðinga er mjög skýr um að hækka þurfi grunnlaun stéttarinnar,“ sagði Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, í fréttatilkynningu.

Lögregluþjónar eru sjálfir í kjarabaráttu en þeir hafa verið samningslausir í 14 mánuði. Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna hefur sakað ríkið um að nýta sér það að lögregluþjónar megi ekki fara í verkfall.