Lögreglan stöðvaði í dag mann á reiðhjóli í Hvalfjarðargöngum. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Fram kemur að lögregla hafi sagt manninum að hann „þyrfti að taka á sig örlítinn krók í gegnum Hvalfjörðinn sjálfan,“ Maðurinn á að hafa orðið hissa við að heyra þessi tilmæli, en lét segjast að lokum og „bætti nokkrum kílómetrum við hjólatúr dagsins.“

Í dagbókinni er einnig greint frá tilkynningu sem kom frá farþega skemmtiferðaskips sem taldi maka sinn vera týndan. Í ljós kom að fólkið hafi orðið viðskila í biðröð langferðabifreiða með þeim afleiðingum að annað þeirra komst um borð en hitt varð eftir, en allar bifreiðarnar farnar á brott. Tekið er fram að lögreglan telji sig ekki þurfa að viðhafast í því máli.

Þá var lögreglu tilkynnt um innbrot í geymslur fjölbýlishúss í Kópavogi, en ekki vitað hversu miklu var stolið, né hvort mikið eignatjón hafi átt sér stað.

Einnig er greint frá ökumanni sem lögregla stöðvaði og reyndist réttindalaus og þá þótti ástand bifreiðar hans ekki vera í lagi. Fram kemur að skráningarnúmer bílsins hafði ökumaðurinn smíðað sjálfur, og að sögn lögreglunnar var það „listilega vel“ gert.