Ríkislögreglustjóri hefur stefnt tryggingafélaginu Sjóvá Almennum vegna tjóns sem varð á lögreglubíl er lögregla veitti bíl eftirför sem ekið var á ofsahraða á Miklubraut 2018.

Ágreiningur er um hvort tjón sem verður á lögreglubílum við slíkar aðstæður falli undir ábyrgðartryggingu þess bíls sem veitt er eftirför, en úrskurðarnefnd vátryggingarmála komst að þeirri niðurstöðu í fyrra að lögregla þurfi að standa straum af þeim kostnaði sem hlýst af hlutverki hennar við að halda uppi lögum og reglu.

Málsatvik eru rakin í úrskurði nefndarinnar en þar segir að eftirför lögreglu hafi hafist á Miklubraut þar sem maðurinn ók á 170 kílómetra hraða í júní 2018. Umferð þurfti að sveigja frá til að forðast slys og veitti lögregluvarðstjóri lögreglumönnum heimild til að aka á bíl mannsins til að freista þess að stöðva ferð hans.

Það var fyrst reynt á hringtorgi við Vesturlandsveg, án árangurs, og setti lögreglan á Vesturlandi þá naglamottu á veg í Kjósarskarði. Við það dró aðeins úr hraðanum. Lögreglubíll ók síðan þétt upp að afturenda bíls mannsins, nýtti skriðþunga sinn og ýtti honum, þannig að bíllinn snerist og fór út af veginum.

Lögreglan taldi Tryggingafélag hins brotlega ökumanns eiga að bæta tjón sem varð á lögreglubílnum vegna aðgerðarinnar. Ökumaðurinn hafi gerst brotlegur við fjölmörg ákvæði umferðarlaga, ekki sinnt stöðvunarmerkjum og lagt sjálfan sig og aðra í stórhættu. Hann hafi sýnt af sér vítavert gáleysi og aðgerðir lögreglu verið eðlilegar miðað við aðstæðurnar sem sköpuðust. Ökumaðurinn beri því ábyrgð á því tjóni sem hlaust af.

Telja lögreglu hafa valdið tjóninu af ásetningi

Vísar lögreglan einkum til 15. greinar lögreglulaga sem heimili lögreglu að grípa til nauðsynlegra ráðstafana á kostnað manns til að koma í veg fyrir að óhlýðni hans valdi tjóni eða stofni almenningi í hættu og 19. greinar um skyldu almennings til að hlýða fyrirmælum sem lögregla gefi.

Umrætt tryggingafélag benti hins vegar á að lögreglan hefði ekið á bílinn af ásetningi, þrátt fyrir að fyrirsjáanlegt væri að tjón hlytist af. Úrskurðarnefndin tók undir það og komst að þeirri niðurstöðu að lögreglan ætti ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu bíls ökufantsins.

Nokkrum mánuðum eftir að þessi úrskurður var kveðinn upp tók úrskurðarnefndin annað svipað mál til úrskurðar. Þá var um að ræða tvo lögreglubíla sem freistuðu þess að stöðva för ökumanns sem var á númerslausum bíl og virti ekki stöðvunarmerki lögreglu. Hann hafði ekið á allt að 140 kílómetra hraða og gerst sekur um fjölda annarra umferðarlagabrota, til dæmis svigakstri milli akreina og annarra bifreiða.

Eftir töluverða eftirför hafi öðrum lögreglubílnum verið komið fyrir sem tálma fyrir framan bílinn, sem ók beint inn í hliðina á lögreglubílnum og stöðvaðist svo. Við það hafnaði hin lögreglubifreiðin óhjákvæmilega aftan á bílnum.

Líkt og í fyrra málinu hafnaði tryggingafélag ökufantsins bótaskyldu vegna þess tjóns sem varð á lögreglubílunum, með vísan til ásetnings lögreglunnar og féllst úrskurðarnefndin aftur á það mat.Með málshöfðun sinni leitast ríkislögreglustjóri við að eyða réttaróvissu um ábyrgð á tjóni lögreglunnar af aðgerðum sem þessum. Málið hefur þegar verið þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og stendur gagnaöflun yfir.