253 mál voru skráð hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum um verslunarmannahelgina, en þar var haldin Þjóðhátíð í fyrsta skipti frá árinu 2019. Til samanburðar voru 252 mál skráð hjá lögreglunni þá verslunarmannahelgi.

Átta líkamsárásir hafa verið skráðar, og þar af er eitt heimilisofbeldismál. Fram kemur að enginn þolenda hafi hlotið alvarlega líkamsáverka.

Lögreglu hefur borist tilkynning um tvö kynferðisbrot, en tilkynningarnar bárust í gær, mánudag.

Þá hefur einn verið kærður fyrir ofbeldi og hótanir í garð lögreglu.

Fram kemur að þrír fíkniefnaleitarhundar hafi verið til aðstoðar og að alls hafi komið upp þrjátíu fíkniefnamál, og í einu þeirra sé grunur um sölu og dreifingu.

„Það er mat lögreglu að helgin hafi almennt gengið ágætlega og verið rólegri en síðustu þjóðhátíðir. Að því sögðu er vert að hafa í huga að eitt ofbeldisbrot er einu ofbeldisbroti of mikið.“ segir í tilkynningu lögreglunnar í Vestmannaeyjum.