Um­mæli Helga Magnúsar Gunnars­sonar, vara­ríkis­sak­sóknara, um sam­kyn­hneigða og flótta­fólk verða sett í greiningu hjá lög­reglu berist kæra eða beiðni um lög­reglu­rann­sókn. Þetta kemur fram í svari Huldu Elsu Björg­vins­dóttur, yfir­manns á­kæru­sviðs lög­reglunnar á Höfuð­borgar­svæðinu til Frétta­blaðsins.

Hulda Elsa segist ekki vita til þess að kæra eða beiðni um rann­sókn hafi borist em­bættinu.

Að­spurð segir Hulda Elsa að rann­sóknir á ætluðum brotum gegn 233. gr. a í al­mennum hegningar­lögum um hatur­s­orð­ræðu.

„Hvað varðar það hvort til greina komi að hefja rann­sókn á um­mælum vara­ríkis­sak­sóknara þá veit ég ekki til þess að kæra eða beiðni um lög­reglu­rann­sókn hafi borist, en gerist það þá munum við setja slíkt mál í greiningu eins og við gerum við öll sam­bæri­leg mál þar sem ætlað brot er hatur­s­orð­ræða,“ segir í svari Huldu Elsu við fyrir­spurn Frétta­blaðsins.

Ummælin um samkynhneigðan flóttamann

Helgi Magnús birti færslu sína við frétt úr kvöld­fréttum Stöðvar 2 í gær þar sem rætt var við lög­mann hælis­leitanda eftir að Héraðsdómur snéri við ákvörðun Útlendingastofnunnar um synjun um hæli, enda teldist sannað að hann væri samkynhneigður.  Sagði lögmaðurinn stjórn­völd hafa vænt skjól­stæðing sinn um að ljúga til um kyn­hneigð sína.

Í færslu við fréttina segir Helgi Magnús hæl­is­­leit­end­ur „auð­vitað“ ljúga um kyn­hneigð sína og spurði hvort „ein­hver skortur [væri] á hommum á Ís­landi.“

Varðar allt að tveggja ára fangelsi

Hatur­s­orð­ræða er refsi­verð sam­kvæmt al­mennum hegningar­lögum og varðar allt að tveggja ára fangelsi en í á­kvæði 233. gr. a segir:

„Hver sem opin­ber­lega hæðist að, róg­ber, smánar eða ógnar manni eða hópi manna með um­mælum eða annars konar tjáningu, svo sem með myndum eða táknum, vegna þjóð­ernis, litar­háttar, kyn­þáttar, trúar­bragða, kyn­hneigðar eða kyn­vitundar, eða breiðir slíkt út, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Tjáir sig ekki um starfsmannamál

Frétta­blaðið sendi einnig fyrir­spurn til Sig­ríðar Frið­jóns­dóttur ríkis­sak­sóknara um hvort til greina kæmi að veita Helga Magnúsi á­minningu.

„Ég tel mér ekki heimilt að fjalla um mál­efni starfs­manna við fjöl­miðla,“ segir í svari Sig­ríðar til blaðsins.