Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segist ekki sekta ökumenn sem keyra á nýjum göngugötum í miðbænum. Merkingarnar séu þess eðlis að ökumenn taki ekki eftir þeim að þeirra mati.

„Enda eru merkingar þess eðlis að við teljum ökumenn hreinlega ekki átta sig á breytingunni. Auk þess eru hlið ekki lokuð, til að hreyfihamlaðir komist leiðar sinnar,“ segir forsvarsmaður lögreglunnar í svari við fyrirspurn frá fjölmiðlamanninum Gísla Marteini á Twitter.

Netverjar hafa birt myndir og myndbönd þar sem ökumenn, bæði á einkabílum, lögreglubílum og leigubílum, sjást aka niður nýjar göngugötur í miðbænum þrátt fyrir sérstök skilti sem sett voru upp í síðustu viku.

Skiltin minna vegfarendur á að hluti Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs sé nú orðinn að varanlegum göngugötum.
Twitter/ @erlendur

Samþykkt var í fyrra að gera hluta Laugavegar, Skólavörðustígs og Vegamótastígs að varanlegum göngugötum.

„Með umbreytingu og endurhönnun Laugavegar er markmiðið að glæða götuna enn meira lífi með því að veita gangandi og hjólandi vegfarendum aukið rými í götunni frá því sem nú er,“ sagði í tilkynningu frá Reykjavíkuborg í fyrra.

Þá virðast ökumenn ekki vilja gefa gangandi vegfarendum aukið rými ef marka má færslur á Twitter.

Umferð ökutækja og bifreiðastöður eru óheimilar á göngugötum. Ein­ung­is hreyfi­hömluðum öku­mönn­um og neyðarbíl­um er heim­ilt að aka inn á svæðið.
Mynd/Reykjavíkurborg