Ferðamálastofa svipti ferðaskrifstofuna Farvel starfsleyfi 18. desember síðastliðinn eftir að fyrirtækið hafði í fjórtán mánuði hunsað að bregðast við kröfu um hækkaða tryggingu. Við fall Farvel sátu fjölmargir eftir með sárt ennið vegna ferða sem aldrei voru farnar.

„Tryggingin sem Farvel var með dugði fyrir broti af fargjöldum viðskiptavina,“ segir Eiríkur Jónsson, fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands og einn þeirra sem hafði greitt inn á ferð hjá Farvel.

Eiríkur segir athæfi forsvarsmanns Farvel saknæmt. „Það var kallað eftir því að fólk greiddi inn á ferðir sínar þegar ljóst var í hvað stefndi,“ segir Eiríkur. Hann hafi greitt ferðina með greiðslukorti og því fengið hana endurgreidda að mestu.

„Þeir sem millifærðu inn á reikning fyrirtækisins töpuðu nánast öllu slíku. Ég veit af fjölskyldu sem millifærði um 3 milljónir en fékk aðeins 10 prósent frá Ferðamálastofu,“ segir Eiríkur sem kveður erindi vegna linkindar Ferðamálastofu gagnvart Farvel hafa verið sent Umboðsmanni Alþingis. Ferðamálastofu bárust 76 kröfur í tryggingasjóð vegna Farvel. Meðal endurgreiðsla var um 10 prósent.

„Þetta er eitt dæmi þess að við mælum hiklaust með því að fólk greiði slíkar ferðir með greiðslukortum,“ segir Helena Þ. Karlsdóttir, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu.

Aðspurð af hverju ekki hafi verið fyrr gripið inn í gagnvart Farvel segir Helena að slíkar stjórnsýslulegar ákvarðanir taki einfaldlega tíma.

„Þetta er mjög öfgakennt dæmi og sem betur fer sjaldgæft að slíkir viðskiptahættir eigi sér stað. Við teljum að þarna hafi saknæmt athæfi átt sér stað og bíðum nú niðurstöðu lögreglurannsóknar.“ segir Helena Þ. Karlsdóttir.