Lög­reglan á Vestur­landi er með til rann­sóknar at­vik um þar síðustu helgi þegar kona ók bíl sínum inn í hóp fólks sem fór ríðandi um Ferju­bakka­veg í Borgar­firði. Hross fældust, að minnsta kosti einn hestanna varð fyrir bílnum og stúlka slasaðist á fæti.

Lög­regla var kölluð á vett­vang eftir at­vikið. Rann­sókn lög­reglu felst meðal annars í að kanna hvort á­setningur hafi ráðið ferð konunnar sem ók inn í þvöguna eða hvort um slys hafi verið að ræða. Sam­kvæmt upp­lýsingum blaðsins eru tengsl milli konunnar og eins í hópnum. Bíl­stjórinn er sjálf hesta­kona.

Alls voru reið­menn á annan tug talsins á veginum þegar at­vikið átti sér stað. Hrossin voru hátt í 40. Konan er sögð hafa „legið á flautunni“ áður en hún ók á eitt hrossið í hópnum og fældist stóðið með þeim af­leiðingum að einn hestanna steig á fót 15 ára gamallar stúlku sem meiddist lítil­lega.

„Lög­reglunni barst til­kynning um þetta at­vik og fór á vett­vang. At­vikið er til skoðunar hjá okkur,“ segir Ás­mundur Kristinn Ás­munds­son, settur yfir­lög­reglu­þjónn hjá Lög­reglunni á Vestur­landi.