Lögreglan á Austurlandi ræðir nú við karlmann vegna óstaðfestra hótana sem bárust gegn forsætisráðherra fyrr í dag. Karlmaðurinn sem um ræðir er íbúi á Seyðisfirði og er ekki sáttur við atburði síðastliðinna daga. Hann segir í viðtali við Fréttablaðið að aurskriðurnar á Seyðisfirði í síðustu viku séu ekki náttúruhamfarir heldur megi rekja til vanrækslu stjórnvalda. Íbúar og yfirvöld hafi vel vitað af hættunni og telur hann að það hefði verið hægt að koma í veg fyrir svo mikla eyðileggingu.
Kristján Ólafur Guðnason, lögreglufulltrúi á Austurlandi, staðfestir í samtali við Fréttablaðið að lögreglan ræði nú við mann. Hann ítrekar að á þessum tímapunkti hafi enginn verið handtekinn. Um sé að ræða óstaðfestar hótanir sem að þau ætli að ræða við hann.
Ræddi við þingmenn og forsetafrúnna
Karlmaðurinn segir að þær óstaðfestu hótanir sem um ræðir megi rekja til símtala sem hann átti við nokkra þingmenn og forsetafrúnna í morgun um aurskriðurnar sem féllu á Seyðisfirði.
„Ég vil láta vita að lögreglan er að taka mig á lögreglustöðina vegna hótana. Ég er í Rauða krossinum núna sem hún [innskot blaðamanns: forsætisráðherra] er á leið að heimsækja og ég hef verið beðin að fara,“ segir maðurinn, í samtali við Fréttablaðið, sem vill ekki láta nafns síns getið að svo stöddu.
Fer sjálfviljugur á lögreglustöð
„Þetta er misnotkun á valdi og spilling. Ég er að fara á lögreglustöðina núna,“ segir hann.
Halda þau að þú hafir hótað henni?
„Nei. Ég hringdi í þrjá eða fjóra þingmenn í morgun og Elizu Reid og talaði um það sem hefur gerst á Seyðisfirði og að ekki sé um náttúruhamfarir að ræða heldur mistök hjá ríkisstjórninni. Það er verið að þagga niður í mér og ég fer með mínum eigin vilja,“ segir karlmaðurinn.