Oddur Árna­son, yfir­lög­reglu­þjónn á Suður­landi, segir lög­regluna í lands­hlutanum ekki hafa á­hyggjur af því að fólk muni safnast saman og skemmta sér þar sem úti­há­tíðir hafa verið blásnar af. Fólk hafi verið dug­legt að fylgja reglum og passa sóttvarnir.

Tekin var á­kvörðun í dag um að af­lýsa úti­há­tíðinni Flúðir um Versló í ár, þrátt fyrir engar opin­berar sam­komu­tak­markanir. Skipu­leggjandi segir aukinn fjölda smita Delta af­brigðisins um að kenna.

For­svars­menn Þjóð­há­tíðar í Eyjum hyggjast hins­vegar halda ó­trauðir á­fram. Þór­ólfur Guðna­son hefur ekkert gefið upp enn um það hvort yfirvöld hyggist grípa til einhverskonar aðgerða innanlands vegna smitanna.

Oddur segir lög­regluna telja á­kvörðun for­svars­manna Flúða á­byrga en tekur fram að lög­reglan hafi ekki átt neina að­komu að henni. „Og við vitum að al­menningur er al­mennt á þeirri línu að gera hlutina vel og að fólk tekur þátt í því að vanda sig,“ segir hann.

„Við þurfum bara að standa saman í þessu,“ segir Oddur. Að­spurður að því hvernig staðan hefur verið, meðal annars síðasta sumar þegar sam­komu­bann var í gildi vegna CO­VID-19 segir yfir­lög­reglu­þjónninn að al­mennt hafi verið farið að öllum reglum. „Og ég tel ekki neina á­stæðu til að ætla að það verði ekki þannig.“