Lögreglan á Suðurlandi hefur fengið gögn frá Matvælastofnun sem nýtast í rannsókn lögreglu á dýraníði við blóðtöku á fylfullum hryssum á íslenskum sveitarbæjum. Lögreglan hefur óskað eftir aðstoð dýraverndarsamtakanna AWF/TSB.

Hálft ár er liðið frá því að þorri almennings heyrði í fyrsta sinn að blóðmerahald væri stundað á Íslandi. Umræðan um velferð hryssa komst í hámæli eftir að dýraverndarsamtökin AWF/TSB (Animal Welfare Foundation/Tierschutzbund Zürich) birtu 20 mínútna heimildarmynd sem sýndi dýraníð við blóðtöku úr fylfullum hryssum.

MAST hóf í kjölfarið rannsókn á dýraníði á blóðtökubæjum sem birtust í myndbandinu en rannsókn stofnunarinnar leiddi hvar at­vikin áttu sér stað og hvaða fólk átti hlut að máli. Líftæknifyrirtækið Ísteka rifti samningum við hluta af samstarfsbændum sínum „vegna ólíðandi meðferðar hrossa“.

Vilja frumgögn frá AWF

MAST lauk rann­sókn sinni snemma í janúar og vísað málinu og þeim gögnum sem fyrir lágu til lög­reglu til frekari rann­sóknar og að­gerða.

Kæran vegna blóðmeramálsins fór til Lögreglunnar á Suðurlandi að sögn Sigríðar Björnsdóttur, yfirlæknis í hrossasjúkdómum hjá Matvælastofnun.

„Við höfum fengið gögn frá MAST og eru þau hluti af okkar rannsókn. Þá höfum við kallað eftir gögnum frá Animal Welfare Foundation og er sá þáttur í vinnslu,“ sagði Rúnar Þór Steingrímsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglustjóranum á Suðurlandi, í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins. Lögreglan hefur sömuleiðis óskað eftir aðstoð samtakanna og afriti af öllum frumgögnum við gerð heimildarmyndbands samtakanna.

Sabrina Gurtner, fulltrúi AWF, segir í samtali við Fréttablaðið að samtökin sýni fullan samstarfsvilja með lögreglu og saksóknara. Hún segir að í ósk lögreglu hafi ekki komið fram hvaða lagabrot væri nákvæmlega verið að rannsaka. Samtökin hafi bent lögreglu á að óska opinberlega eftir aðstoð við rannsókn samkvæmt milliríkjasáttmála Evrópuráðs. Þannig væri hægt að veita lögreglunni á Íslandi talsvert mikið af gögnum sem annars væri ekki hægt samkvæmt lögfræðingi samtakanna.

Samtökin hafa ekki heyrt frá lögreglu aftur varðandi þessa samvinnu.