Kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu skoðar nú hvort efni sem Íslendingar setja á samfélagsmiðilinn Onlyfans flokkist sem framleiðsla og sala á klámi.

Eins og greint hefur verið frá í fjölmiðlum hafa fjölmargir Íslendingar tekjur af því að selja nektarmyndir og myndbönd á Onlyfans.

„Það er verið að taka stöðuna á þessu með öðrum verkefnum. Það er mikið skilgreiningaratriði í dag hvað er klám,“ segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.

Samkvæmt almennum hegningarlögum skal hver sá sem býr til eða flytur inn í útbreiðsluskyni, selur, útbýr eða dreifir á annan hátt út klámritum, klámmyndum eða öðrum slíkum hlutum sæta sektum eða fangelsi allt að sex mánuðum. Ævar segir þetta snúast um forgangsröðun verkefna.

„Okkar forgangsröðun í kynferðisbrotadeildinni er á nauðganir, brot gegn börnum og önnur kynferðisbrot þar sem verið er að brjóta á einhverjum. Það er ekki þar með sagt að ef það er verið að fremja eitthvað sem við teljum smávægileg brot fyrir framan nefið á okkur þá förum við ekki í þau,“ segir Ævar.

Líklega hægt að gera tekjurnar upptækar

Spurður hvort það væri þá hægt að gera tekjurnar upptækar sem ávinning af broti segir Ævar það líklegt.

„Ég myndi halda það. Það er verið að afla tekna með ólögmætum hætti bara eins og ef það væri verið að framleiða kannabis. En ég þori ekki alveg að fara með það vegna þess að netvettvangurinn er hýstur annars staðar, þar sem klám er ekki endilega ólöglegt,“ segir Ævar.

Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Gæti falið undir ákvæði um bann við sölu á klámi.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar, telur hægt að heimfæra efni á Only­fans undir ákvæði almennra hegningarlaga um bann við sölu á klámi.

„Ég myndi líta svo á að öll svona framleiðsla sem er búin til og dreift á netið myndi hugsanlega flokkast þar undir,“ segir Hulda.

Spurð hvort hægt væri að gera tekjurnar upptækar segir Hulda að skoða þurfi hvert tilvik fyrir sig.

„Það er almenn upptökuheimild í 69. grein almennra hegningarlaga þar sem við gerum upptækan ávinning af broti. Við verðum að skoða hvert tilvik fyrir sig ef um brot er að ræða og hvort það falli þar undir,“ segir Hulda.

Ákærusvið lögreglunnar og kynferðisbrotadeildin munu funda um framhaldið á næstu dögum.

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, yfirmaður ákærusviðs lögreglunnar,

Varsla og framleiðsla ekki það sama

Spurð um hvort það sé mögulegt að það sé venja sé fyrir sölu á klámi hérlendis þar sem klám var lengi vel aðgengilegt á vídeóleigum og er nú aðgengilegt á netinu, segir Hulda vörslu og framleiðslu ekki vera það sama.

„Við höfum lítið verið að eltast við vörslur á hefðbundnu klámi. Það var fyrir einhverjum áratugum síðan tekið á vídeóleigum og vörslum þeirra á myndefni. Hins vegar erum við kannski komin inn í eitthvað annað þegar við erum að tala um framleiðslu. Þá erum við að tala um annan verknað sem þarf að skoða sérstaklega,“ segir Hulda en hún óskaði eftir því að Onlyfans yrði skoðað sérstaklega.

Skilgreiningin á klámi ekki breyst í langan tíma

Skilgreining á klámi hefur ekki breyst í íslenskum lögum í langa tíma. Samkvæmt Huldu er enn unnið eftir skilgreiningu sem unnin var af hálfu sérfræðinganefndar Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna en skilgreining hennar á klámi hljóðar svo í íslenskri þýðingu:

„Klám er ögrandi framsetning á kynlífi í auðgunartilgangi, án ástar, blíðu eða ábyrgðar, en kynþokkalist er bókmenntaleg eða listræn tjáning ástar.“