Miðlæg rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur nú til rannsóknar stunguárás fyrir utan skemmtistaðinn 203 um helgina en tvítugur karlmaður var stungin þar sex sinnum með skrúfjárni. Hér að neðan má sjá myndband af árásinni sem hefur gengið manna á milli frá því að árásin átti sér stað aðfaranótt laugardags.

Einar Guðberg hjá miðlægri deild lögreglunnar segir í samtali við Fréttablaðið að myndbandið sé meðal rannsóknargagna lögreglunnar. Hann segir að nokkrir hafi haft samband við lögregluna vegna málsins en eins og sést í myndbandinu þá var nokkur fjöldi vitni að árásinni.

„Það hafa nokkrir haft samband.“

Umfram það segir Einar Guðberg að hann geti ekki tjáð sig frekar um rannsókn málsins og hvort að lögreglan hefði uppi á árásarmönnunum en í gær höfðu þeir ekki fundist.

„Við getum ekkert tjáð okkur frekar um rannsókn málsins,“ segir hann að lokum.

Úr lífshættu

Móðir drengsins sagði í Facebook-færslu í gær að syni hennar væri vart hugað líf en hann var meðal annars stunginn í gegnum lungað. Hann er ekki lengur í lífshættu en í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær sagði hún að hann hefði lent í litlum útistöðum við hóp manna fyrr um kvöldið, sem virtist lokið, en endaði svo með þessum hætti.