Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú hrottalegu líkamsárásina sem átti sér stað í Hamraborg í Kópavogi í síðustu viku, þar sem hópur íslenskra unglingsstráka veittust að erlendum stráki. Þetta kemur fram í tilkynningu sem lögreglan sendi frá sér í dag.

Sami drengur varð fyrir árás fyrir nákvæmlega 10 mánuðum í Grafarvogi. Ekki er vitað hvort um sé að ræða sömu árásarmenn en það er þó margt sem bendir til þess. Árásirnar tvær voru báðar teknar upp á myndband, í bæði tilfellum öskruðu unglingspiltarnir á erlenda drenginn og skipuðu honum að sleikja skóna sína.

RÚV birti myndband í frétt sinni í gær af árásinni í Kópavogi en þar hópurinn sést sparka til skiptis í strákinn, sem liggur á jörðinni upp við bíl, á meðan einn unglingsstrákanna öskrar: „Sleiktu skóinn, kysstu fokking skóinn, kysstu á mér fokking skóinn.“

Þegar lögreglan mætti á vettvang voru árásarmennirnir farnir en lögregluþjónar ræddu við strákinn sem varð fyrir árásinni og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

„Um grófa árás var að ræða,“ segir lögreglan sem telur sig hafa nokkuð skýra mynd af atburðarásinni er meðal annars stuðst við myndefni af árásinni í rannsókn málsins.

Þeir sem urðu vitni að árásinni, eða búa yfir vitneskju henni tengdri, eru beðnir um að hafa samband við lögreglu, en upplýsingum má koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið [email protected]