Lög­reglan á Norður­landi eystra mun fara fram á gæslu­varð­hald á þremur aðilum vegna mann­dráps á Ólafs­firði í nótt. Karl­maður á fimm­tugs­aldri lést af stungu­á­verkum og voru fjórir hand­teknir í að­gerðum lög­reglunnar nótt.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá þessu í Facebook-færslu. Lögreglan hefur mál til rannsóknar er varðar mannslát á Ólafsfirði síðastliðna nótt. Gerð hefur verið krafa um gæsluvarðhald yfir þremur aðilum er hafa stöðu sakbornings í málinu en úrskurður liggur ekki fyrir,“ segir í færslunni.

Í viðtali við Vísi segir Arnfríður Gígja Arngrímsdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn í rannsóknardeild, að liggja ætti fyrir í kvöld hvort Héraðs­dómur Norður­lands eystra fallist á kröfu lög­reglunnar um gæslu­varð­hald á aðilunum þremur.

Fram kom í til­kynningu frá lög­reglunni að þegar fyrstu lög­reglu­mennirnir komu á vett­vang, voru endur­lífgunar­til­raunir hafnar á manninum sem var með á­verka. Læknir og sjúkra­flutninga­menn komu einnig á vett­vang en endur­lífgunar­til­raunir báru ekki árangur og var maðurinn úr­skurðaður látinn á vett­vangi.

Auk hins látna var einn aðili á vettvangi með áverka og var hann fluttur á sjúkrahús þar sem hann fékk aðhlynningu.

Vettvangsrannsókn er nú lokið og hefur verið farið fram á réttarkrufningu yfir hinum látna.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er rannsókn málsins í fullum gangi og miðar hún að því að upplýsa málsatvik. Lögregla telur sig hafa þá í haldi sem eru viðriðnir málið.

Ekki náðist í Arnfríði Gígju við vinnslu fréttarinnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.