Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu vinnur nú eftir vís­bendingum og kannar upp­tökur úr eftir­lits­mynda­vélum vegna skot­á­rásarinnar sem beindist gegn hús­næði Sam­fylkingarinnar í Sól­túni. Þetta hefur Ríkis­út­varpið eftir Jóhanni Karli Þóris­syni, yfir­lög­reglu­þjóni.

Líkt og fram hefur komið urðu starfs­menn skrif­stofunnar varir við skot­göt á glugga­rúðum Sam­fylkingarinnar þegar þeir mættu til starfa á föstu­dags­morgun. Segir Jóhann að lög­reglu hafi borist all­nokkrar vís­bendingar, sem verið sé að skoða.

Þá sé kannað hvort að tengsl séu á milli þessa og annarra skot­á­rása gegn hús­næði annarra stjórn­mála­flokka, líkt og á Val­höll, hús­næði Sjálf­stæðis­flokksins. Frétta­blaðið greindi frá því fyrir helgi að lög­regla hafi hand­tekið að minnsta kosti einn vegna sam­bæri­legrar skot­á­rásar á hús­næði Pírata árið 2019. Sama ár var skotið á skrif­stofur Við­reisnar.

Þá segir Karen Kjartans­dóttir, fram­kvæmda­stjóri Sam­fylkingarinnar, að starfs­menn stjórn­mála­flokkanna ræði nú ó­form­lega saman um við­brögð við at­burðum sem þessum. Hugsan­legt sé að ríkis­lög­reglu­stjóra verði sent form­legt erindi, ljóst sé að um sé að ræða ógn við starfs­menn flokkanna.

Aðkoman að skrifstofu Samfylkingarinnar var ljót í morgunsárið á föstudag.
Fréttablaðið/Anton Brink