Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur nú eftir vísbendingum og kannar upptökur úr eftirlitsmyndavélum vegna skotárásarinnar sem beindist gegn húsnæði Samfylkingarinnar í Sóltúni. Þetta hefur Ríkisútvarpið eftir Jóhanni Karli Þórissyni, yfirlögregluþjóni.
Líkt og fram hefur komið urðu starfsmenn skrifstofunnar varir við skotgöt á gluggarúðum Samfylkingarinnar þegar þeir mættu til starfa á föstudagsmorgun. Segir Jóhann að lögreglu hafi borist allnokkrar vísbendingar, sem verið sé að skoða.
Þá sé kannað hvort að tengsl séu á milli þessa og annarra skotárása gegn húsnæði annarra stjórnmálaflokka, líkt og á Valhöll, húsnæði Sjálfstæðisflokksins. Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi að lögregla hafi handtekið að minnsta kosti einn vegna sambærilegrar skotárásar á húsnæði Pírata árið 2019. Sama ár var skotið á skrifstofur Viðreisnar.
Þá segir Karen Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, að starfsmenn stjórnmálaflokkanna ræði nú óformlega saman um viðbrögð við atburðum sem þessum. Hugsanlegt sé að ríkislögreglustjóra verði sent formlegt erindi, ljóst sé að um sé að ræða ógn við starfsmenn flokkanna.
