Lög­reglan í Japan leitar nú að apa sem grunaður er um að hafa ráðist á rúm­lega tíu manns á síðustu tveimur vikum. Apinn, sem er fjöru­tíu til fimm­tíu sentí­metrar á hæð, hefur herjað á bæinn Ogori í suð­vestur­hluta Japans.

The Guardian segir frá einu alvarlegasta atvikinu en þá braust apinn inn í hús og tók unga­barn upp á fótunum. Móður barnsins tókst þó að hrekja apann í burtu en barnið reyndist mikið klórað eftir at­vikið.

„Ég var að ryk­suga þegar ég heyri barnið grátandi, þegar ég sný mér við sé ég apann halda á því á fótunum en barnið hafði verið að leika á gólfinu. Það leit út fyrir að apinn væri að reyna að ná barninu út,“ sagði móðir barnsins í sam­tali við svæðis­bundinn fjöl­miðil.

Japanska ríkisútvarpið, NHK, sagði frá því í síðustu viku að um­ræddur api hafi ráðist inn á leik­skóla og þar hafi hann ráðist á fjögurra ára stúlku. Stúlkan var flutt á sjúkra­hús í kjöl­far á­rásarinnar, en hún slasaðist á fótum.

Í öðru at­viki opnaði apinn renni­hurð sjálfur og komst þannig inn í í­búðar­hús­næði, þar réðst hann fyrst á unga stúlku áður en hann réðst á fimm full­orðna ein­stak­linga. Þau full­orðnu enduðu með bit­sár eftir apann.

NHK segir að síðan í maí hafi verið til­kynnt um fjöru­tíu skipti þar sem api sést innan um menn. Lög­reglan í bænum var sett í hærra við­búnaðar­stig vegna apans.

Settar hafa verið gildrur og fólki varað við að hafa gluggann opinn heima hjá sér. Bæjar­stjórinn hefur dreift miðum þar sem hann biður íbúa bæjarins að hafa augun opin, en apinn er enn sagður vera laus.

Á því svæði sem borgin stendur, hafa árásir bjarna verið tíðar. Byggt hefur verið nær náttúrulegu umhverfi bjarna og apa eins og umræddur api og því leita dýrin að þéttbýlum svæðum í leit að mat.