Kiwanisklúbburinn Helgafell samþykkti í október að veita lögregluembættinu í Vestmannaeyjum styrk á aðra milljón króna til kaupa á fíkniefnaleitarhundi. Hundurinn, sem hefur nú hlotið nafnið Móa, er mættur til landsins og hefur þegar hafið þjálfun. Móa, eða Sunny eins og hún hét áður, er flutt inn frá Englandi og er enskur springer spaniel. Hún hefur nýlega hafið þjálfun undir leiðsögn Heiðars Hinrikssonar lögreglumanns og er að sögn kraftmikill hvolpur.

Í tilefni af gjöfinni mættu félagar úr Helgafelli á lögreglustöðina í Vestmannaeyjum með gjafabréf til formlegrar afhendingar þar sem þeim var tekið með kaffi og konfekti. Helgafellsfélagar óska Móu góðs gengis í störfum sínum í náinni framtíð og vona að leitarhundurinn verði góð forvörn úti í Eyjum.

Frá heimsókn Helgafells í Lögreglustöðina í Vestmannaeyjum.
Mynd/Aðsend