Verjandi hins þrítuga Daða Björnssonar eins sakborninga í stærsta kókaínmáli Íslandssögunnar, Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður, telur lögreglu hafa ráðist í handtökur vegna málsins of snemma og að lögreglan hefði í raun átt að fylgja hinni meintu fíkniefnasendingu lengur eftir.

Þar sem um gerviefni hafi verið að ræða hefði sú aðgerð verið með öllu áhættulaus og ljóst að sú rannsókn hefði leitt til þess að málið hefði verið betur upplýst.

Arnar Kormákur krefst vægustu refsingar sem lög leyfa fyrir hönd Daða í málinu og að óslitið gæsluvarðhald sem hann hefur sætt frá 5. ágúst í fyrra ásamt hinum þremur sakborningum málsins komi til frádráttar á dæmdri fangelsisrefsingu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í greinargerð Arnars Kormáks í málinu og send var til Héraðsdóms Reykjavíkur.

Bann við fjölmiðlaumfjöllun

Aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar síðastliðinn og verður framhaldið 9. og 10. febrúar næstkomandi.

Í upphafi aðalmeðferðar lagði dómari bann við umfjöllun fjölmiðla upp úr skýrslutökum sakborninga og vitna þar til þeim væri öllum lokið sem verður ekki fyrr en um miðjan febrúar.

Frétt þessi er því einungis unnin upp úr greinargerð verjenda Daða, Arnars Kormáks lögmanns.

Verjendur Jóhannesar Páls og Birgis skiluðu ekki greinargerð vegna málsins og því verður ekki fjallað um þeirra hlut í málinu fyrr en aðalmeðferð málsins lýkur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í febrúar.

Á Litla Hrauni saman

Fjórmenningarnir hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því handtökunni þann 5. ágúst í fyrra. Daði, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson eru á Litla Hrauni en Páll Jónsson í fangelsinu á Hólmsheiði.

Þeim er líkt og fyrr hefur verið greint frá gefið að sök að hafa flutt inn tæp hundrað kíló af kókaíni auk peningaþvætti að upphæð samtals tæpum 63 milljónum króna.

Við þingfestingu málsins í héraðsdómi í nóvember neituðu þeir allir ýmist sök eða neituðu að taka afstöðu til málsins.

Hlutverk Daða veigalítið

Að sögn Arnars Kormáks er óumdeilt af gögnum málsins að dæma að Daði þekkir enga meðákærðu í málinu og hefur aldrei átt í samskiptum við þá, hvorki í tengslum við þetta sakamál eða vegna annars. Hlutverk Daða hafi verið veigalítill og mun veigaminni en annarra í framkvæmd brotsins.

Daði hafi heldur ekki haft hugmynd um hversu mikið magn af fíkniefnum hafði verið flutt til landsins fyrr en 4. ágúst, daginn fyrir handtöku. Þá hafi ákæruvaldið farið þá leið við framsetningu ákærunnar að gera mun meira úr þætti Daða í málinu en efni standa til.

Á leið inn í dómsal í fylgd lögreglu og verjenda sinna.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Ræktaði kannabis í Mosó

Daða er einnig ákærður fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa haft í vörslum sínum samtals 15,01 grömm af maríjúhana og að hafa haft í vörslum sínum í sölu og dreifingarskyni 28,31 grömm af maríjúhana, 995 grömm af kannabislaufum, 265 grömm af kannabisplöntum og 24 kannabisplöntur og að hafa um nokkurt skeið fram til 4. ágúst í fyrra ræktað fyrrgreindar plöntur.

Daði játar sök er varðar fíkniefnalagabrot en vill þó benda á að aðeins hafi tólf kannabisplöntur verið í ræktun og hún geti því ekki talist umfangsmikil.

Þá telur hann framsetningu á magni kannabisefnanna í ákærunni vera verulega villandi og ónothæft uppsóp kannabisefna sé tilgreint sem „265 grömm af kannabisplöntum.“

Sakborningarnir fjórir huldu allir andlit sín á meðan ljósmyndarar fjölmiðla mynduðu inn í dómsal áður en aðalmeðferð málsins hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. janúar síðastliðinn.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Stóð ekki að innflutningi

Arnar Kormákur hafnar því að Daði hafi gerst sekur um innflutning efnanna þar sem hann kom inn í málið eftir að efnin höfðu borist til landsins.

„Í öllu falli gerðist ákærði ekki sekur um fíkniefnainnflutning í félagi við aðra, heldur fól verknaður hans í sér afar afmarkaða hlutdeild í því broti,“ segir jafnframt í greinargerðinni.

Samkvæmt henni var hlutverk Daða í málinu afmarkað við að fjarlægja efni úr viðardrumbum og flytja hlut þeirra á milli staða hér á landi. Daði hafi ekki með nokkru móti stuðlað að innflutningi efnanna til landsins.

Þá segir jafnframt að þrátt fyrir að um umtalsvert magn fíkniefna virðist hafa verið að ræða sé ekki réttlátt að einstaklingur á borð við Daða sem lét plata sig til þátttöku í slíkum verknaði fái þungan dóm.