Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu rétt eftir miðnætti í gærkvöldi um konu sem gekk eftir miðri akbraut á Sæbrautinni og var að hoppa í veg fyrir umferð.

Konan reyndist ölvuð og fór ekki að fyrirmælum lögreglu og var hún handtekin og færð á lögreglustöð þar sem lögregluþjónar reyndu að ræða við hana. Fékk hún síðan að fara heim þar sem hún sagðist ætla að fara að sofa.

Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort konan hafi vísvitandi hoppað í veg fyrir umferð eða hvort hún væri talin hættuleg sjálfri sér þegar hún fékk að fara heim.

Brotist inn í skartgripaverslun

Lögregla hafði afskipti af manni sem var grunaður um að stela kjöti úr verslun í miðbænum.

Annar maður var handtekinn í Hlíðunum grunaður um vörslu og sölu fíkniefna og brot á vopna- og lyfjalögum.  Maðurinn var vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.

Brotist var inn í fataverslun í Háaleitis- og Bústaðahverfi en ekkert frekar skráð um það í dagbók lögreglu.

Lögreglan fékk tilkynningu um eignaspjöll í Garðabæ klukkan 03:35 eftir að rúður voru brotnar í strætóskýli. Fimm mínútum síðar barst tilkynning um innbrot og eignaspjöll í Kópavogi. Tveir menn höfðu brotið rúður í skartgripaverslun en ekki náð að komast inn og fóru tómhentir á braut.

Glímir þú við sjálfsvígshugsanir? Ræddu málin við sérþjálfaða ráðgjafa Rauða krossins í hjálparsímanum, 1717, eða á netspjalli Rauða krossins