Lögreglan hefur haldlagt gríðarlegt magn barnaníðsefnis hjá sjö karlmönnum sem hafa verið til rannsóknar síðustu mánuði. Fimm málanna hafa verið send til ákærusviðs lögreglunnar og eru tvö á lokastigi rannsóknar.

Frá þessu var greint í kvöldfréttum Stöðvar 2 en viðamikil rannsókn Dana á dreifingu og vörslu barnaníðsefnis leiddi í ljós að sjö mál vörðuðu Íslendinga. Voru nokkrir handteknir í tengslum við málin á síðasta ári.

Ævar Pálmi Pálmason, aðstoðaryfirlögregluþjónn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 að bæði hafi verið um að ræða efni sem börn hafi sjálf sent af sér til vinar sem hafi svo lent í höndum barnaníðinga og einnig myndbrot þar sem fullorðinn einstaklingur níðist á börnum.

Þá sagði hann að engar myndir af íslenskum börnum hafi fundist við rannsókn málanna. Meirihluti efnisins hafi áður komið upp í erlendum rannsóknum.