Lögregluþjónar sem komu fyrst á vettvang eftir að Armando Beqirai var skotinn til bana segjast ekki hafa séð byssu í bílskúrnum í Rauðagerði.

Mikið uppnám var á vettvangi en fljótlega eftir að lögreglan mætti á vettvang voru vinir Armando, þar á meðal einn eigenda dyravörslu fyrirtækisins Top Guard, mættir fyrir utan. Lögregluþjónar áttuðu sig ekki strax á því að um væri að ræða skotárás en sönnunargögn eins og skothylki og byssukúlur höfði fokið til í rokinu. Heyrði einn lögregluþjónn frá sjúkraflutningamanni að Armando væri með skotsár.

Lögregluþjónar og sérfræðingar í tækni og greiningu hjá lögreglunni lýstu aðkomu að vettvangi og rannsókn á skotárásinni fyrir utan Rauðagerði kvöldið 13. febrúar. Annar dagur aðalmeðferðar fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur og er nú farið yfir rannsóknar málsins.

Var haglabyssa fjarlægð úr bílskúrnum?

Fjögur er ákærð fyrir manndráp eða aðild að manndrápi; Angjelin Sterkaj er sakaður um að hafa skotið Armando til bana og hefur hann játað en borið fyrir sig sjálfsvörn. Claudia Sofia Coelho Carvalho, Murat Selivrada og Shpetim Qerimi eru ákærð fyrir samverknað en þau neituðu öll sök í gær.

Hin ákærðu og verjendur þeirra. Angjelin situr fremst en í aftari bekk frá vinstri eru þau Shpetim, Murat og Claudia.
Fréttablaðið/Anton Brink

Angjelin reynir að færa sönnur fyrir því að hann hafi verið að verja sjálfan sig þegar hann skaut Armando. Í vitnisburði sínum í gær sagði hann Armando hafa hótað sér og syni sínum lífláti og hafi tekið haglabyssu upp úr skottinu á bílnum sínum og sett upp í hillu í bílskúrnum þegar Angjelin mætti heim til hans kvöldið 13. febrúar. Deilur þeirra snerust að hans sögn um milligöngu að peningaskuld Antons Kristins Þórarinsson. Armando á að hafa beðið Angjelin um að taka börnin af „Tona“ eins og hann er kallaður en þegar Angjelin neitaði hafi Armando og aðrir „undirheimamenn“ ógnað Angjelin. Hann segist hafa mætt heim til Armando til að sættast og hafi skotið hann eftir að Armando hótaði honum og teygði sig í haglabyssu.

Verjandi Angjelin spurði lögregluþjóna hvort mögulegt væri að einhver hefði getað komist inn í bílskúrinn eftir árásina og fjarlægt haglabyssuna sem Angjelin segir Armando hafa tekið úr bílnum og sett í hillu í bílskúrnum en lögregluþjónar sögðust hafa vaktað bílskúrinn alla nóttina.

Ekkja Armando, Þóranna Helga Gunnarsdóttir, segir af og frá að Armando hafi verið með byssu á sér og lögregluþjónar segjast einnig ekki hafa fundið neitt skotvopn í bílskúrnum. Vinir Armando, Vladimir og Dennis, hafi mætt á staðinn um klukkan eitt um nóttina en Armando var skotinn um klukkan ellefu, eða tveimur klukkustundum áður. Sjúkraflutningamenn voru mættir á vettvang um þremur og hálfri mínútu eftir árásina og lögreglumenn fljótlega eftir það.