Á morgun verður farið fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tveimur meintum hryðjuverkamönnum. Mennirnir eru báðir á þrítugsaldri og hafa setið í varðhaldi í nærri sjö vikur. Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður annars mannsins en ekki má halda mönnum lengur í gæsluvarðhaldi en í alls tólf vikur.
„Það væri því um miðjan desember sem þetta myndi renna út. Það mætti ekki halda þeim lengur nema að gefa út ákæru. Gæsluvarðhaldskrafan snýst núna, öfugt við það sem var fyrst, um að það séu almannahagsmunir að halda þessum piltum inni í gæsluvarðhaldi áfram,“ segir Sveinn Andri.
Mennirnir eru í lausagæslu eins og stendur en voru fyrstu vikur varðhaldsins í einangrun. Samkvæmt því hafa þeir síðustu vikur fengið að ræða við fjölskyldur sínar.
Hann segir að dómari hafi samþykkt áframhaldandi varðhald á þessum grundvelli fyrir tæpum fjórum vikum og að Landsréttur hafi samþykkt það.
„Þetta er sjálfstætt mat sem á sér stað á morgun,“ segir Sveinn Andri.
Framkvæmt var geðmat á báðum mönnunum en hann segist ekki geta tjáð sig um innihald þess að svo stöddu.
„Vegir dómstólanna eru órannsakanlegir og það má alltaf vona það besta. Ég mun, og minn umbjóðandi, mótmæla þessu harkalega á morgun. Þetta er eins og einhver leikur sem gengur allt of langt. Lögreglan er komin langt fram úr sér að okkar mati og það er óskandi að dómurinn sjái það raungerast,“ segir Sveinn Andri að lokum.