Á morgun verður farið fram á á­fram­haldandi gæslu­varð­hald yfir tveimur meintum hryðju­verka­mönnum. Mennirnir eru báðir á þrí­tugs­aldri og hafa setið í varð­haldi í nærri sjö vikur. Sveinn Andri Sveins­son er lög­maður annars mannsins en ekki má halda mönnum lengur í gæslu­varð­haldi en í alls tólf vikur.

„Það væri því um miðjan desember sem þetta myndi renna út. Það mætti ekki halda þeim lengur nema að gefa út á­kæru. Gæslu­varð­halds­krafan snýst núna, öfugt við það sem var fyrst, um að það séu al­manna­hags­munir að halda þessum piltum inni í gæslu­varð­haldi á­fram,“ segir Sveinn Andri.

Mennirnir eru í lausa­gæslu eins og stendur en voru fyrstu vikur varð­haldsins í ein­angrun. Sam­kvæmt því hafa þeir síðustu vikur fengið að ræða við fjöl­skyldur sínar.

Hann segir að dómari hafi sam­þykkt á­fram­haldandi varð­hald á þessum grund­velli fyrir tæpum fjórum vikum og að Lands­réttur hafi sam­þykkt það.

„Þetta er sjálf­stætt mat sem á sér stað á morgun,“ segir Sveinn Andri.

Fram­kvæmt var geð­mat á báðum mönnunum en hann segist ekki geta tjáð sig um inni­hald þess að svo stöddu.

„Vegir dóm­stólanna eru ó­rann­sakan­legir og það má alltaf vona það besta. Ég mun, og minn um­bjóðandi, mót­mæla þessu harka­lega á morgun. Þetta er eins og ein­hver leikur sem gengur allt of langt. Lög­reglan er komin langt fram úr sér að okkar mati og það er ó­skandi að dómurinn sjái það raun­gerast,“ segir Sveinn Andri að lokum.